143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:39]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni innlegg hans í umræðuna. Ég er kannski óraunsæ að bera þá von í brjósti, ég átta mig á því, því að þrátt fyrir að flokkarnir vilji kannski á einhverjum tímapunkti teljast vera jafnaðarflokkar þá eru þeir það svo sannarlega ekki og allra síst í þeim málum sem þeir hafa lagt hér fram og snúa að fjármálum með einhverjum hætti.

Öryggi og velferð landsmanna, já, það er vissulega það sem flokkur minn vill standa fyrir og Sjálfstæðisflokkurinn virðist vilja gera það í orði en ekki á borði, eins og hv. þingmaður benti á. Það er kannski það sem við stöndum frammi fyrir. Það er rétt, það var auðvitað pressa á stjórnina að gera þetta til þess að halda verðbólgunni í skefjum, en svo hafa komið upp efasemdir um að þetta geri það og enn frekar þegar líður á árið. Þá minnka líkurnar kannski til þess að þetta hafi eitthvað með það að gera.

Hv. þingmaður talaði hér um trygga löggæslu. Ég vil ekki draga úr því að bætt hefur verið í þann þátt og er það vel. Settar voru inn 300 nýjar milljónir, 200 milljónir voru þar áður og voru þær festar í sessi, þannig að það er svo sem ekki allt alslæmt í þessu. En ég hef líka sagt að mér finnist mjög sérstakt að ríkissjóður velji að fjármagna þessar aðgerðir með þeim hætti sem hann gerir, að taka féð út úr annarri ríkisstofnun, í staðinn fyrir, ef það er raunverulega hægt, að taka einhvern hagnað út úr ríkisstofnunum, á þá ekki að fara yfir allar þær stofnanir sem hægt er að fara í og skila hagnaði þeirra bara beint inn í ríkiskassann? Þá hefðum við meira ráðstöfunarfé.

Ég hef líka velt þeirri spurningu upp sem mér hefur ekki fundist vera svarað, þ.e. hvort nýta eigi alla þá peninga sem upphaflega var ætlunin að taka út, eða ekki.