143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[21:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Meðan hv. þm. Guðbjartur Hannesson hélt sína afbragðsgóðu ræðu urðu þau tíðindi að Ísland komst áfram í Eurovision-keppninni. Það eru ánægjuleg tíðindi ólíkt þeim sem við ræðum hér. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson fór ágætlega yfir þetta mál og þá forgangsröðun sem birtist í því. Ég hjó sérstaklega eftir því sem hann sagði í ræðu sinni áðan um þá forgangsröðun sem birtist í málinu. Þar er verið er að leggja til gjaldskrárlækkanir meðal annars á áfengi og fleiru en horft fram hjá öðrum hlutum sem hafa hækkað og við fórum yfir það í 1. umr. þessa máls, samanber komugjöld á heilsugæslu. Það slær mann auðvitað að sjá umsagnir ýmissa málsmetandi aðila á borð við Alþýðusamband Íslands og Starfsgreinasambandið þar sem nákvæmlega sú forgangsröðun er gagnrýnd.

Eins og ég sagði sló það mig þegar hv. þingmaður nefndi að forgangsröðunin sem birtist í þessu frumvarpi væri ekki til þess fallin að auka jöfnuð í samfélaginu. Ég er hjartanlega sammála því.

Mér finnst að sumu leyti aðgerðir þessarar ríkisstjórnar einkennast af ákveðnu stefnuleysi, jafnvel ágreiningi milli stjórnarflokkanna, nánast eins og flokkarnir viti í raun ekkert hvert þeir stefni og gangi a.m.k. alls ekki í takt. Það hefur verið tilfinning okkar margra í hverju málinu á fætur öðru. En í þessum málum virðast þeir ganga í takt og mig langar að spyrja hv. þm. Guðbjart Hannesson hvort hann telji að það sé meðvituð stefna ríkisstjórnarflokkanna með tilraunum sínum, hvort sem þær lúta að því að setja aukin gjöld á sjúklinga á heilsugæslustöðvum, leggja auknar álögur á námsmenn í háskólum eða að framlengja ekki auðlegðarskattinn, eða hvort hann álítur þetta vera eina birtingarmynd stefnuleysisins sem við sjáum svo víða annars staðar í verkum hæstv. ríkisstjórnar.