143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[21:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að ég fagna því að Pollapönk sé komið áfram og við tökum öll þátt í því að berjast gegn fordómum í þessum heimi, ekki veitir af.

Það sem hv. þingmaður spurði um var hvort um væri að ræða meðvitaða stefnu. Mig langar eiginlega að svara því þannig um það sem er að gerast hér, sérstaklega hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn og raunar Framsóknarflokkinn að sumu leyti líka, að þetta eru flokkar sem alltaf lofa skattalækkun en í rauninni hækka gjaldtöku, en taka það annars staðar en í almenna skattkerfinu. Menn koma svo og segja: Við höfum lækkað tekjuskatt. En þeir taka það svo í nefsköttum eða gjaldtökum sem jafnvel er bein skattheimta. Ég kalla það beina skattheimtu þegar menn taka gjöld sem ekki eru látin fara í viðkomandi málaflokk eins og til dæmis í sambandi við opinbera háskóla eða Ríkisútvarpið, af því að við nefndum það tvennt, og líka í sambandi við hjálpartæki og ýmislegt annað, sem færir það sem áður var greitt af opinberum sjóðum yfir á notendur. Þetta er einnig gert varðandi samningana við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara.

Ég held að þetta sé meðvituð stefna en aftur á móti er ég alveg klár á því að hún eykur ekki jöfnuð og réttlæti. Það sem er náttúrlega hugmyndin í því skattkerfi sem ég aðhyllist er að við tökum ákveðin gjöld sameiginlega og berum síðan ábyrgðina á því að lágmarka kostnaðinn þegar menn verða fyrir áföllum, hvort sem það eru veikindi, atvinnuleysi eða einhverjir slíkir hlutir. Við reynum að búa þannig um að samfélagið haldi utan um slíka einstaklinga og verji þá í gegnum áföllin.

Já, ég óttast að þetta sé meðvituð stefna þótt hún birtist í alveg ótrúlega tilviljanakenndu formi hvað varðar smærri atriði.