143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[21:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var vitni að því, raunar eftir á með því að spila upptöku af óundirbúnum fyrirspurnatíma, þegar hv. þingmaður Katrín Jakobsdóttir spurði forsætisráðherra um ógnunina af ójöfnuði í þessum heimi. Hæstv. forsætisráðherra leyfði sér að segja að í tíð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefði jöfnuður aukist á Íslandi. Ég hef hvergi fundið þær tölur. Við sjáum grein sem Stefán Ólafsson skrifar þar sem hann mælir á Gini-stuðli hvernig jöfnuður hefur þróast á tímabilinu fram að hruni, fram til 2007. Þá jókst ójöfnuður á Íslandi meira en nokkurs staðar annars staðar. Samt leyfa menn sér að koma í ræðustól og vera með slíkar fullyrðingar. Ég hugsaði að þarna væri enn eitt orðið að öðlast nýja merkingu þegar hæstv. forsætisráðherra kallaði þetta staðreyndir. Þá er þetta orðið eins og með orðið strax, sem þýðir einhvern tímann, staðreynd er eitthvað sem er hæfilega mikil lygi.

Það var þannig að jöfnuður jókst á síðasta kjörtímabili, þótt ég hafi fært að því rök að hann hafi ekki aukist nægjanlega, og að tala um að jöfnuður sé að aukast núna, svo kann að vera gagnvart einstökum hópum en í heildina er sá hópur skilinn eftir sem hefur það verst, 10, 20% prósentin, og verið að hygla þeim sem hafa mest. Ég get ekki með nokkru móti fundið út hvernig það á að auka jöfnuð á þessu landi.

Við skulum láta Hagstofuna og þá mælikvarða sem þar koma fram meta það þegar þar að kemur. Guð láti gott á vita að hér aukist jöfnuður áfram.

Varðandi það hvort þetta skilar viðunandi árangri kann ég heldur ekki að meta það. Þarna var talað um 0,08%, sem áhrifin á verðbólguna áttu að vera. ASÍ efast um að það verði og talar um 0,04 eða 0,05, þ.e. næstum helming af því. Nú kann ég ekki að reikna það, en það kemur í ljós. Árangurinn (Forseti hringir.) hingað til hefur verið umtalsverður hvað varðar verðbólgu. Það er ekki (Forseti hringir.) út af þessum aðgerðum, það er alveg ljóst.