143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[21:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú nýlega, rétt fyrir 1. maí, kom fram í fréttum í Ríkisútvarpinu að ákaflega stór hluti landsmanna byggi við og undir lágmarksframfærslu. Mig minnir að reiknað hafi verið út að það gætu verið um 30 þúsund manns sem væru undir lágmarksframfærsluviðmiðun velferðarráðuneytisins. Það eru því vissulega næg verkefni fyrir höndum í samfélagi okkar að standa við bakið á þeim sem minnst mega sín og búa við lægstu laun eða lágar tekjur, hvort sem það eru öryrkjar eða aldraðir.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvernig hún sér í þessu samhengi að komið sé til móts við aðila á vinnumarkaðnum að mæta þeim verst settu að fara að lækka gjöld á stóriðju sem borgar að uppistöðu raforkuskattinn um 75–90% sem kannski í stóra samhenginu gerir ekki mikið og eru 10 aurar. Sér hv. þingmaður að þetta sé eitthvert innlegg í stuðning við þá sem verst eru settir, þessar lækkanir sem eru nú auðvitað í stóra samhenginu ansi litlar en skipta samt máli fyrir stóriðjuna, að fara að lækka það.

Varðandi áfengisgjaldið og lækkanir á verðlagsuppfærslu á áfengis- og tóbaksgjaldi. Telur hún að þetta skili sér til þeirra, sem við hljótum (Forseti hringir.) að vera að horfa til, sem verst eru settir?