143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[21:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er svo lítið, þetta skiptir svo litlu máli. Mér finnst við hafa kannski gefið þessu pínulitla máli allt of mikinn tíma, meira að segja í þessum sal, vegna þess að það er hvorki fugl né fiskur sem verið er að koma fram með. Það er bara brotabrot úr krónu, þetta er smotterí sem hér er um að ræða. Þetta hefur óskaplega lítil áhrif á fjárhag heimilanna eða það sem launafólk í landinu mun hafa umleikis eftir samþykkt þessa máls. Þetta er hrein og klár sýndarmennska. Menn voru að friðþægja launafólk í landinu með yfirlýsingum sem eru mjög í anda ríkisstjórnarinnar, stórkarlalegar, og skila svo hvorki fugli né fiski. Þegar því er mótmælt og óskað er eftir að forgangsröðunin sé öðruvísi er bara beitt þöggun og launþegasamtökum er ekki einu sinni svarað. Okkur þingmönnum er ekki einu sinni svarað. Þá er hreinlega þögn um það að verið sé að ganga gegn þeirra vilja, hér er sýndarmennska á ferðinni.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson fór alveg ágætlega yfir það áðan til dæmis hvaða áhrif þetta mun hafa á rekstur heimilisbíls eftir því hvað fólk ekur mikið. Úthverfafjölskylda á sæmilega neyslugrönnum bíl fær kannski einn bíómiða á ári ef lækkunin skilar sér. Ég held að þetta muni hafa óveruleg áhrif og ég held að við þurfum a.m.k. að fá svör við því — mat Alþýðusambandsins er að áhrifin gætu verið 0,04%. (Forseti hringir.) Það er ekki mikið í stóra samhenginu.