143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[21:53]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur og velta því fyrir mér hvort þetta þingmál verðskuldi þá umræðu sem það hefur fengið hér í dag. Eitt er víst að ríkisstjórnin verðskuldar ekki þá athygli sem við sýnum verkum hennar ef gildi frumvarpsins er mælt í krónum og aurum. Ég ætlaði nú varla að trúa því þegar ég las 7. gr. frumvarpsins þar sem vísað er til þess að í stað fjárhæðarinnar 0,130 kr. í 2. mgr. 5. gr. laga, um umhverfis- og auðlindaskatta, skuli koma 0,129 kr. [Hlátur í þingsal.] Það er einn þúsundasti úr krónu. Þetta kunna að vera háar upphæðir þegar safnast saman, það er alveg rétt, en þó er frumvarpið þegar allt kemur til alls ekki mikið að vöxtum að því leyti. Ég ætla að leyfa mér að lesa hér, með leyfi forseta, upp úr umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem segir um fjárhagsleg áhrif frumvarpsins:

„Sú aðgerð að lækka eldsneytisgjöld og áfengis- og tóbaksgjöld um 1% leiðir til þess að tekjur ríkissjóðs af umræddum gjaldstofnum munu lækka um 460 millj. kr. á ársgrundvelli. Þar af nemur lækkun eldsneytisgjalda nálægt 270 millj. kr. og áfengis- og tóbaksgjalda 190 millj. kr. Þeirri lækkun verður mætt með áformum um breytt fyrirkomulag við álagningu tóbaksgjalds og auknum arðgreiðslum frá ÁTVR þannig að afkoma ríkissjóðs haldist óbreytt frá áætlun fjárlaga. Lagfæring á lögum um stimpilgjald er ekki talin hafa í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð verði frumvarpið að lögum.“

Með öðrum orðum, verið er að lækka ýmis gjöld en þó er okkur sagt á mjög óræðan hátt að þessum gjaldskrárlækkunum frá áður fyrirhuguðum hækkunum verði mætt með því að soga arð út úr ÁTVR. Þetta er mjög órætt. Þetta er mjög óljóst.

Síðan er það hitt náttúrlega að þessar tekjur fyrir ríkissjóð eru neyslutengdar. Þetta eru gjöld á neysluvöru á eldsneyti og brennivín og tóbak og það er að sjálfsögðu komið undir neyslunni hver áhrifin verða á ríkissjóð.

Ég velti því fyrir mér hvað veldur því að ríkisstjórnin hafi valið þessa vöru til að lækka gjöldin á í ljósi umræðunnar sem fylgdi frá verkalýðshreyfingunni héðan úr þingsal frá stjórnarandstöðunni og víðs vegar að úr samfélaginu þar sem ríkisstjórnin var gagnrýnd fyrir að hafa ekki ráðist í aðrar gjaldskrárbreytingar. Mun ég koma að því síðar og tek þar undir með öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem beint hafa sjónum sínum að heilbrigðisþjónustunni sérstaklega, skólagjöldum og öðru slíku. Ég velti því fyrir mér hvort það geti verið vegna þess að þrýstingurinn inn í stjórnarflokkana vegna tóbaksins og brennivínsins hefur verið miklu meiri. Brennivínsdeild Sjálfstæðisflokksins hefur sent alþingismönnum sennilega upp undir eitt þúsund pósta til að hvetja til þess að við lækkum gjöld á áfengi. Við sáum það um jólin þegar sú holskefla reið yfir, ég held að það hafi aðallega verið stöðluð bréf frá sjálfstæðismönnum, frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins sem sérhæfir sig á þessu sviði, þar sem sérstaklega var hvatt til þess að gjald á áfengi yrði lækkað, ég held ekki hafi nú verið minnst á tóbak.

Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs og aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa kvatt sér hljóðs um þetta mál þótt við séum sammála um að það sé varla verðugt langrar umræðu, er sú að umræðan fjallar í rauninni um allt annað en þetta frumvarp. Það fjallar um það sem ekki er í þessu frumvarpi, það er málið. Þessi umræða fjallar um svik ríkisstjórnarinnar gagnvart aðilum vinnumarkaðar sem var gefið í skyn í aðdraganda tilraunar til kjarasamninga um áramótin að til stæði að falla frá margvíslegum hækkunum sem áður höfðu verið boðaðar á gjöld, ýmis gjöld. Strax eftir að frumvarp ríkisstjórnarinnar kom fram þar sem þessar áherslur voru boðaðar sögðu þessir aðilar: Já, en hvað með komugjöldin á heilsugæslustöðvar? Hvað með lyfin? Hvað með hjálpartækin? Hvers vegna var ekki ráðist í lækkun þar? Menn horfa til þess að um áramótin hækkuðu komugjöld á heilsugæslustöðvar um 20%.

Það er ekki svo að ríkisstjórnin geti afsakað sig með því að hún hafi ekki vitað hvað hún var að gjöra vegna þess að í haust og síðan aftur í janúar birtust tvær mjög athyglisverðar skýrslur, önnur var unnin fyrir Krabbameinsfélag Íslands af hálfu Ingimars Einarssonar, sérfræðings í heilbrigðismálum, og hin var unnin að frumkvæði Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, þar sem gaumgæfð var þróun í kostnaði við heilbrigðisþjónustuna. Það var gert í báðum þessum könnunum. Hvað kemur í ljós í þessum könnunum? Það sem kemur í ljós er að á undangengnum 20–30 árum hefur þróunin verið í ógæfuátt þannig að nú er svo komið að um 20% af kostnaði við heilbrigðisþjónustuna í landinu kemur upp úr vösum sjúklinga. Það sem verra er, í báðum þessum könnunum kemur fram, og þær staðfesta hvor aðra að því leyti, að tekjulægsta fólkið í landinu er farið að veigra sér að leita lækninga vegna þess að það hefur ekki ráð á því. Það er við þessar aðstæður sem ríkisstjórnin ákveður að hækka komugjöld í heilbrigðisþjónustunni. Það er við þessar aðstæður sem verið er að hækka margvíslegan kostnað annan sem sjúklingar verða fyrir, t.d. kostnað við margvísleg hjálpartæki fyrir krabbameinssjúklinga. Ég hlustaði á barátturæðu á Selfossi þar sem kona sagði frá eigin reynslu hvað þetta snertir og vísaði til þess að hún þekkti það vel bæði af eigin reynslu og annarra að fólk hefði ekki efni á að festa kaup á þessum tækjum.

Það er þetta sem við erum að ræða við þessa umræðu núna. Það stoppar enginn við bensíngjaldið, sem er sáralítið eða þúsundasta hluta úr krónu í raforkuskatti, það stoppar enginn við það þó að menn horfi til þess að með þessu dragi ríkisstjórnin úr grænum sköttum, hún dregur úr álagningu á áfengi og tóbak, það gagnast þeim náttúrlega sem vilja geta drukkið ódýrt og reykt ódýrt, að sjálfsögðu gagnast það slíku fólki, en við hefðum viljað sjá allt aðrar áherslur og þar erum við alveg sameinuð, stjórnarandstaðan hér á Alþingi, og tölum einum rómi með verkalýðshreyfingunni og almannasamtökum. En þetta er fyrst og fremst táknrænt um pólitískar áherslur ríkisstjórnarinnar. Þetta verður þeim mun stærra og meira mál þegar horft er til annarra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til á sviði skattamála.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson vék að því áðan, og aðrir þingmenn hafa einnig gert það, að ákvörðunin um að falla frá auðlegðarskatti, sem kemur til framkvæmda í byrjun næsta árs, munar ríkissjóð um væntanlega 9 milljarða kr.

Við erum búin að standa hér í þingsal og ræða veiðigjöldin og auðlindaskatta, hvernig þar hafa verið lækkaðar álögur eða aðgangur að sjávarauðlindinni um milljarða. Við fórum í gegnum umræðuna hér í fyrra um virðisaukann á ferðaþjónustuna, sem ég held að allir séu nú farnir að sjá eftir í hjarta sínu að var rangt af hálfu ríkisstjórnarinnar, þ.e. að samræma ekki virðisaukann þar við ýmsa aðra þjónustu, álögur á þá atvinnugrein sem skilar okkur miklu og ætti að geta skilað okkur miklu meira. Þetta er samhengið sem fólk horfir á þetta frumvarp í. Ég hef orðið var við það í viðræðum við fulltrúa úr verkalýðshreyfingunni og almannasamtökum að fólk er forviða yfir þessum áherslum.

Síðan ítreka ég að það er margt afar óljóst í þessu frumvarpi. Við vitum ekki hvaða áhrif það hefur t.d. á ÁTVR að ætla að soga aukinn arð út úr því frumvarpi. Það er ekki hægt að ganga á fyrirtæki, ekki heldur ÁTVR, það er fyrirtæki með fjölda fólks í vinnu og sinnir sínu hlutverki ágætlega. Hefur verið spurt hversu aflögufært það er um það sem nú á að taka af því?

Við sátum á fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun og ræddum þar við fulltrúa frá Fjarskiptastofnun. Við vorum þar að fjalla um lögbundnar skyldur þeirrar stofnunar hvað varðar eftirlit með símafyrirtækjum og aðrar skyldur sem á þeirri stofnun hvíla. Þá kom í ljós, sem er ekki undrunarefni, að Fjarskiptastofnun hefur þurft að sæta niðurskurði um 25% að raungildi á undanförnum árum eftir hrun. Það er nokkuð sem stjórnsýslan og stofnanir í landinu hafa þurft að búa við. Þess vegna er ég líka alltaf svona efasemdafullur þegar menn gerast of alhæfingasamir gagnvart stjórnsýslunni. Það á reyndar líka við um stofnanir sveitarfélaga þegar menn tóku þátt í miklum fordæmingarkór, sem var nú reyndar þverpólitískur, hér um áramótin gagnvart sveitarfélögunum, að það væri alrangt af þeim í öllum tilvikum að hækka gjaldskrár. Auðvitað vil ég að velferðarþjónustan almennt sé fjármögnuð með sköttum en ekki gjaldtökum, sérstaklega þegar um velferðarþjónustu er að ræða. En ef það er ekki gert og almennir skattar í sveitarfélaginu eru keyrðir í hámark þarf að spyrja um ástæður gjaldskrárhækkana vegna þess að þessar stofnanir þurfa að borga fólki laun, þær þurfa að borga húsnæði, rafmagn og hita og margvíslega aðra þjónustu. Þess vegna er rangt að mínu mati að alhæfa um stofnanir, hvort sem það eru sveitarfélaga eða ríkisins hvað þetta snertir. Það þarf að skoða hvert einstakt tilvik um sig og komast að niðurstöðu um hverja einstaka stofnun hvað er rétt eða hvað er rangt í þessu efni vegna þess að það má aldrei gleymast að þetta eru stofnanir sem eiga það sammerkt með fyrirtækjum, sem eru líka að hækka verð fyrir selda vöru eða þjónustu, að þær eru að sjálfsögðu háðar sömu lögmálum, þær verða að geta ráðið fólk og þær verða að geta rekið sig.

Ég tek þess vegna ekki undir það að fordæma eigi allar gjaldskrárhækkanir, hverju nafni sem þær nefnast og hvenær sem er, iðulega er ráðist í gjaldskrárbreytingar af illri nauðsyn.

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort ástæða er til að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég er búinn að lesa frumvarpið vel. Ég er búinn að lesa greinargerð sem fylgdi frumvarpinu. Ég er búinn að lesa nefndarálit frá meiri hluta og báðum minni hlutum um frumvarpið og ég er búinn að hlusta á umræðuna hér í dag. Ég hef setið við sjónvarpsskjá á skrifstofu minni og held ég að ég hafi heyrt allflestar ræður sem fluttar hafa verið í umræðunni. Eftir því sem ég heyrði meira af umræðunni fór ég að sakna þess að ekki væru fleiri úr stjórnarmeirihlutanum sem stæðu upp til að verja þessar breytingar, þessar gjaldskrárhækkanir, til að verja ríkisstjórnina fyrir svikin gagnvart verkalýðshreyfingunni og aðilum vinnumarkaði frá því um áramót. Hvar er þetta fólk? Hvers vegna tekur það ekki þátt í umræðunni um þetta mál? Hvers vegna svara stjórnarliðar okkur ekki sem erum að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir áherslur hennar, að falla frá auðlegðarskatti, að gefa eftir gagnvart stórútgerðinni sem var hér grátandi úti á Austurvelli? Hún sigldi öllum flotanum í höfnina í Reykjavík til að fylkja liði á Austurvöll gegn auðlindagjaldi og hafði hátt þegar við ræddum þau mál síðastliðið sumar, en efndi síðan til aðalfunda og borgaði eigendum sínum þúsundir milljóna í arð ofan í þeirra eigin vasa.

Hvar er þetta fólk núna sem var svo öflugt í umræðunni um þessi mál á síðasta kjörtímabili? Hvar er það núna? Eigum við ekki að ræða áherslur þeirra sem koma fram í skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar sem birtast okkur í því að verið er að lækka skatta á brennivín og tóbak? Þó að það sé ekki mikið þá er það gert á sama tíma og verið er að rukka sjúklinga um hjálpartæki. Komugjöld á heilsugæslustöðvar voru hækkuð um 20% um síðustu áramót og síðan fáum við þennan sýndargjörning núna.

Ef þessir peningar skiluðu sér hins vegar í ríkissjóð, tæpur hálfur milljarður, ef það verður ekki allt mjólkað út úr ÁTVR aftur, þá skipta þessar krónur vissulega máli. Þá skiptir hálfur milljarður máli. Þá skiptir það máli hvert hann rennur, hvort hann fer til sveltrar heilsugæslunnar, sem við höfum fengið að heyra varnaðarorð frá bæði læknum sem þar starfa, frá forsvarsmönnum heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega og frá einstökum læknum og samtökum lækna um að nú sé ástandið að verða verulega alvarlegt.

Ég spyr: Getur verið að menn séu að stefna málum í óefni til þess að undirbúa stóra drauminn sem Sjálfstæðisflokkurinn á og hefur átt í mörg ár, að einkavæða heilbrigðisþjónustuna, að markaðsvæða hana?

Við heyrðum ávæning af því í kosningabaráttunni frá formanni flokksins og öðrum helstu talsmönnum hans að það væri sérstakt keppikefli að nýta lausnir markaðarins inn eftir spítalagöngunum. Það var orðað á fundum sem ég sat sjálfur. Getur verið að menn séu með aðgerðum sínum, með sveltistefnunni, að búa í haginn fyrir markaðsvæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar?

Þetta eru spurningar sem við viljum fá svör við. Þess vegna furða ég mig á því, hæstv. forseti, að fulltrúar stjórnarmeirihlutans hér skuli ekki hafa tekið þátt í umræðunni í dag í ríkari mæli en verið hefur til þess að verja áherslur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.