143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[22:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ólíkt hv. þingmanni undrar mig ekkert að stjórnarliðar skuli ekki taka þátt í þessari umræðu, það er einfalt að þeir hafa engar varnir fram að færa fyrir þessari grímulausu pólitík sinni og hafa að vonum einfaldlega lekið niður hér í öllum málflutningi á þessum síðustu dögum í þinghaldinu. Hv. þingmaður nefndi að þetta mál út af fyrir sig varði ekki háar fjárhæðir, liðlega 200 millj. kr. þegar þessu hefur nú öllu verið slegið á frest, líka af hálfu nefndarinnar, en hins vegar var fyrirheitið auðvitað verulegir fjármunir, hálfur milljarður kr. sem átti að ganga til þess að koma í veg fyrir gjaldahækkanir sem ella yrðu.

Vegna þess að hv. þingmaður langa reynslu sem formaður stéttarfélags og af kjarasamningum og vinnudeilum þá spyr ég hann hvort það að ríkisstjórnin bregðist því fyrirheiti muni ekki auðsjáanlega spilla því að það takist að mynda nægilegt traust milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda hér undir árslok þegar aftur þarf að semja og aftur þarf að ná saman og menn þurfa aftur að gefa fyrirheit og aftur verður að vera hægt að treysta fyrirheitum.

Svo vildi ég spyrja hv. þingmann út í það sem hann kallar brennivínsdeild Sjálfstæðisflokksins. Telur þingmaðurinn að hún eigi einhverja fulltrúa hér á þingi? Hvaða hópur manna er það sem hann vísar til sem brennivínsdeildar Sjálfstæðisflokksins?