143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[22:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að draga fram kjarnann í þessari umræðu, og það er akkúrat það sem er ekki hér að finna. Það er svo lítið í þessu frumvarpi að finna að ekki er með neinu móti hægt að segja að verið sé að uppfylla það sem kemur fram í yfirlýsingu um ákvarðanir ríkisstjórnar í tengslum við niðurstöðu kjaraviðræðna. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það hér áðan.

Nú er hann með mikla reynslu af verkalýðsbaráttu. Því langar mig að spyrja hann hvaða áhrif hann telur að þessi pínulitla sýndarefnd á þessari yfirlýsingu frá því í desember gæti haft á samband ríkis og aðila vinnumarkaðarins og á komandi kjarasamningagerð. Telur hann ekki að þessar pínulitlu sýndarefndir geti orðið til þess að grafa undan trausti á yfirlýsingum af þessu tagi sem eiga sér stað samhliða gerð kjarasamninga? Þetta er númer eitt.

Mig langar líka að draga það hér fram að sjötti liðurinn í þessari yfirlýsingu snýr að því að í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 15. nóvember síðastliðnum, við undirbúning þessara kjarasamninga, verði komið á fastanefnd um samskipti hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins sem miði meðal annars að virku aðhaldi í verðlagsmálum. Þrátt fyrir allt þetta er að engu hafðar óskir Starfsgreinasambandsins sem kom að gerð þessara gjaldskrárlækkana og ákvarðanatöku í tengslum við þær og ekki er heldur komið til móts við óskir Alþýðusambands Íslands og Starfsgreinasambandsins um að frekar verði farið í lækkanir á gjaldskrám í heilbrigðisþjónustu.

Ég spyr miðað við reynslu hv. (Forseti hringir.) þingmanns: Er þetta ekki pappírsins virði og hvaða áhrif mun þetta hafa til skemmri (Forseti hringir.) og lengri tíma?