143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[22:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega þannig að tónninn var sleginn strax á fyrsta þingi nýrrar ríkisstjórnar þegar menn komu hér galvaskir og vígreifir til leiks með frumvarp um lækkun á veiðigjöldum um 6,4 milljarða á ársgrundvelli. Eigum við að setja þá 6,4 milljarða í eitthvert samhengi? Hvað er þetta frumvarp hátt hlutfall af því? Brotabrot. Það skiptir engu máli faktískt í því samhengi.

Síðan fara menn í mótvægisaðgerðir til að ná til baka þessum tekjum og hvar finna menn breiðu bökin? Jú, hjá þeim sem hafa lægstu tekjurnar, í nefskatti til Ríkisútvarpsins. Þeir finna þau hjá námsmönnum sem greiða skráningargjöldin. Þeir finna þau hjá þeim sem þurfa mest á heilbrigðisþjónustunni að halda sem hlutfallslega kemur verst niður á þeim sem lægstar hafa tekjurnar o.s.frv. Það er þessi forgangsröðun sem við í þessum sal þurfum að standa í lappirnar gegn vegna þess að hún mun hafa svo alvarlegar afleiðingar.

Þegar síðan hæstv. forsætisráðherra kemur hér og heldur því fram að jöfnuður sé að aukast, það má vel vera að eitthvað hafi lekið af árangri í þá veru frá síðustu ríkisstjórn yfir á kjörtímabil þessarar, en þessar aðgerðir auka ekki jöfnuð í samfélaginu. Ekkert sem þessi ríkisstjórn hefur gert mun leiða til jöfnuðar í okkar samfélagi. Við erum komin beinustu leið inn á hraðbrautina í átt að því sem verst gerist þegar kemur að ójöfnuði í samfélögum, það er bara farið eftir uppskriftinni frá A til Ö af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Mér finnst þess vegna að við og líka verkalýðshreyfingin og aðrir þurfi að segja þessari ríkisstjórn að við látum ekki bjóða okkur lengur fagurgalann og yfirlýsingagleðina um ekkert — þetta eru stór orð, en engu er skilað. (Forseti hringir.) Veruleikinn er síðan allt annar (Forseti hringir.) og breiðu bökin fundin í þeim sem (Forseti hringir.) lægstar hafa tekjurnar.