143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[22:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í athugasemdum með því frumvarpi sem við erum að ræða hér er vísað í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 21. desember 2013 sem kynnt var Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands í tengslum við kjarasamninga. Í yfirlýsingunni segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin lýsir því yfir að hún muni við samþykkt kjarasamninga endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hafa verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga 2014 til að stuðla að því að verðlagsáhrif, sem af þeim leiði, verði minni en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands.“

Það stendur ekkert í þessari yfirlýsingu hvaða gjöld eigi að endurskoða. Ríkisstjórnin velur hins vegar að lækka olíugjald og kílómetragjald, vörugjald á ökutækjum, eldsneyti o.fl., lækka umhverfis- og auðlindaskatta og gjald af áfengi og tóbaki. Það er í fyrsta lagi gagnrýnivert að valið skuli að lækka áfengi og tóbak sem beinlínis er skaðlegt heilsu. Það hefur reynst best að stýra neyslunni á þessum vörum í gegnum verðið. Þessar vörur eru beinlínis hættulegar ef þeirra er neytt í óhófi. En ríkisstjórnin velur sem sagt að lækka gjöld af áfengi og tóbaki og eins olíu- og kílómetragjaldið. Hún lækkar vörugjald á ökutækjum og eldsneyti.

Auðvitað hefur maður samúð með því að mörgu leyti. Það er dýrt að reka ökutæki, en þegar krónutalan er skoðuð er þetta svo lág upphæð. Hv. þingmenn hafa tekið dæmi um það hér fyrr í kvöld, m.a. hv. þm. Guðbjartur Hannesson, og bent á að um sé að ræða 100–200 kr. á mánuði. Auðvitað safnast þegar saman kemur en samt munar þetta ekki miklu fyrir hverja fjölskyldu í landinu.

Samtals áttu þessar gjaldskrárlækkanir að kosta ríkissjóð 460 millj. kr. á ársgrundvelli, en þær munu kosta eitthvað minna þar sem meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt til að lækkunin taki gildi 1. júní. Það hafði verið gert ráð fyrir að hún tæki gildi 1. mars.

Þessi lækkun er gagnrýniverð og valið á þessum vörum er gagnrýnivert sem og sú forgangsröðun sem þar kemur fram. Hvaðan á svo að taka peningana? Það er arðurinn af ÁTVR, eins og fram hefur komið, og það er líka talað um að lækkun verði mætt með áformum um breytt fyrirkomulag við álagningu tóbaksgjalds. Það er hins vegar ekki nánar útfært í frumvarpinu þannig að það er líka nokkuð óljóst hvernig á að ná inn peningum fyrir þessu. Upphæðin hefur þó lækkað vegna þess að meiri hlutinn leggur til að gjöldin lækki frá 1. júní en hækkar ekki krónutöluna á móti.

Hér hefur komið fram fyrr í kvöld að verkalýðsfélögin hafa bent á aðrar leiðir og farið með þær ábendingar inn í nefndina sem vann með þetta frumvarp. Ég vona að einnig hafi verið til umfjöllunar í nefndinni svar heilbrigðisráðherra við spurningum mínum um greiðsluþátttöku fatlaðra og sjúkra. Svar þetta er á þskj. 726 og ég vona að hv. þingmenn sem skipa efnahags- og viðskiptanefnd hafi farið nákvæmlega yfir atriðin þar. Þar er meðal annars farið yfir breytingar á reglugerð sem tók gildi 1. janúar sl. sem hafa í för með sér lækkun á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í ákveðnum vöruflokkum, afnám á greiðsluþátttöku tiltekinna vöruflokka eða þrengingu á reglum um úthlutun ákveðinna hjálpartækja. Þetta þýðir sem sagt að þeir sem þurfa á þessum hjálpartækjum að halda þurfa að greiða sjálfir hærri upphæð.

Í ræðu sem ég hélt um þetta frumvarp við 1. umr. fór ég ítarlega yfir þessi svör og ætla ekki að gera það aftur núna en vil minna á að hér er verið að tala um öndunarvélar, gervibrjóst, bleiur, bað- og sturtustóla með og án hjóla, hjálpartæki í bifreiðar, stafi, hækjur og snúningshjálpartæki, rafknúna hjólastóla og öryggiskallkerfi. Gjöld fyrir þessi tæki sem fólk þarf að nota til að auka lífsgæði sín, og getur í sumum tilfellum alls ekkert valið um að nýta ekki, gjöldin sem fatlaðir og sjúkir þurfa að bera út af þessu, hafa hækkað á bilinu 10% upp í 77%. Þeir sem eru til dæmis með kæfisvefn og þurfa nauðsynlega á öndunarvélum að halda til að aðstoða sig gegn þeim sjúkdómi borguðu í fyrra 18 þús. kr. á ári fyrir þetta hjálpartæki, en í ár þurfa þeir að greiða 31.800. Þarna munar aldeilis um fyrir fólk sem þarf á þessu að halda.

Þá hefur Þroskahjálp bent á að kostnaður fyrir veikan, fatlaðan einstakling sem þarf að nota bleiur að staðaldri sé nú 4–5 þús. kr. á mánuði, en var áður að fullu niðurgreiddur af sjúkratryggingum. Ég minni á dæmið sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson fór yfir áðan um 100 til 200 kr. á mánuði sem lækkanir á bensínverði spara fjölskyldu. Þangað hefði hv. efnahags- og viðskiptanefnd átt að líta. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með að það hafi ekki verið gert. Þessi hækkun á þá sem þurfa að nota hjálpartæki á að skila 150 millj. kr. í ríkissjóð á árinu 2014.

Það er eins með þá sem þurfa nauðsynlega á þjálfun að halda, iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og talþjálfun, þar eru líka umtalsverðar hækkanir. Þær hækkanir eru á bilinu 4% upp í 74%. Þetta eru margir liðir sem ég ætla ekki að fara yfir hér en augljóslega eru þarna á ferðinni hækkanir langt umfram verðlag. Þessi hluti átti að skila ríkissjóði 100 millj. kr. Vegna hjálpartækja sem fatlaðir og sjúkir þurfa að nota og þeirra sem þurfa að nýta sér þjálfun átti þessi hækkun samtals að skila á árinu 2014 250 millj. kr. Þetta finnst hæstv. ríkisstjórn góð hugmynd. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar tekur undir það og vill frekar lækka brennivín og sígarettur en að horfa til þessa fólks. Það er skýrt dæmi um forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar.

Alþýðusamband Íslands hefur tekið saman og birt á heimasíðu sinni ýmsar hækkanir í heilbrigðisþjónustu. Komugjöld á heilsugæslustöðvar hafa hækkað um 20% á árinu 2014, komugjöld til sérfræðinga um 19%, komugjöld á slysa- og bráðamóttökur og göngudeildir sjúkrahúsa 4–7%, gjöld fyrir keiluskurði og kransæða- og hjartaþræðingu tæp 5% og gjöld vegna rannsókna og greininga umtalsvert, t.d. hækkuðu rannsóknir sem gerðar eru samkvæmt beiðni um 10%. Gjöld vegna krabbameinsleitar hækka um 5–6%. Einnig nefnir ASÍ þá reglugerð sem ég var búin að fara yfir hér áðan vegna hækkunar á hjálpartækjum og þjálfun.

Virðulegi forseti. Það vafðist ekki fyrir þessari ríkisstjórn að lækka veiðigjöld á útgerðina sem aldrei hefur búið við betri rekstrarskilyrði en einmitt nú. Ríkisstjórnin lækkaði veiðigjöldin um 3,6 milljarða á árinu 2013, bætti við 6,4 milljörðum á árinu 2014 og núna er til umræðu enn meiri lækkun á veiðigjaldinu. Það á bæta við 1 milljarði á árinu 2014 og það verða 2 milljarðar sem veiðigjöldin lækka þá um á árinu 2015.

Virðulegi forseti. Þarna eru stóru upphæðirnar. Þarna þarf ekki að hugsa sig um andartak þegar koma á til móts við útgerðina sem skilar mjög miklum arði til eigenda sinna en sá hluti sem á að renna til þjóðarinnar er skorinn niður. Hið sama er að segja um virðisaukaskattinn á hótel- og gistiþjónustu. Það var tekið til baka og það þurfti að halda hótelgistingu á sama stað og matvælum, í sama virðisaukaskattsþrepi og matvæli og nauðsynjavara er til almennings, þ.e. 7%. Það var tillaga um að hækka hann upp í 14% sem hefði skilað 2 milljörðum síðla árs 2013 og svo á árinu 2014. Í stað þess að gera þetta, þetta er neysluskattur sem erlendir ferðamenn borga að mestu, er hæstv. ríkisstjórn núna að vandræðast með einhvern náttúrupassa sem á að láta alla Íslendinga borga líka til að hafa upp í þennan afslátt. Að vísu er hugmyndin ekki enn komin fram, enda er hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra ferðamála í stórkostlegum vandræðum með málið. Það er líka vandræðalegt í alla staði hvernig fyrir okkur er komið. Hingað kemur samkvæmt áætlunum 1 milljón erlendir ferðamenn á þessu ári og hæstv. ríkisstjórn skar niður þá fjármuni sem áttu að fara í að efla og bæta innviði á friðlýstum svæðum og laga til okkar verðmætustu náttúruperlur til að geta tekið á móti þessum fjölda öllum saman. Við erum og verðum í stórkostlegum vandræðum vegna þess að hæstv. ríkisstjórn getur ekki klórað sig fram úr þessu máli.

Auðvitað er einfaldasta málið að nýta sér neysluskattskerfið sem fyrir er í landinu. Það er svolítið merkilegt að ríkisstjórn sem talar um að einfalda skattkerfið skuli nú brasa við að búa til eitthvert nýtt gjald en vill ekki nýta sér virðisaukaskattskerfið sem fyrir er. Þetta er með ólíkindum, virðulegur forseti.

Síðan vil ég nefna barnabæturnar. Hæstv. ríkisstjórn hrósar sér af því að hún lækkaði ekki upphæðina, verðbætti hana ekki en lækkaði ekki upphæðina sem áætluð var í barnabætur fyrir árið 2013. Þá höfðu barnabætur verið hækkaðar umtalsvert. Það var ákveðið með lögum að barnabætur ættu að vera 10,2 milljarðar og þegar reikningurinn er gerður upp fyrir árið 2013 er afgangur upp á 262 milljónir.

Fyrsti ársfjórðungur ársins 2014 sýnir að lægri barnabætur fara til barnafjölskyldna núna en á fyrsta ársfjórðungi 2013. Það eru allar líkur á því að 700 milljónir til 1 milljarður verði í afgang á barnabótum árið 2014 vegna þess að viðmiðum fyrir laun og börn hefur ekki verið breytt. Ríkisstjórnin gæti komið með frumvarp, sem rynni í gegnum þingið, til að hækka bætur til barnafólks á seinni hluta ársins og staðið þannig við samþykkt Alþingis um að 10,2 milljarðar ættu að renna til barnafjölskyldna í landinu. Það bólar hins vegar ekki á því frumvarpi, en auðvitað er það það sem á að gera. 1 milljarður til barnafjölskyldna, til þeirra sem samkvæmt öllum greiningum eiga í mestum vanda og beina þeim milljarði að þeim fjölskyldum sem eru með lægstu tekjurnar. Það væri búbót fyrir þær fjölskyldur og mundi skipta miklu máli.

Virðulegur forseti. Það eru miklar líkur á því að gjaldalækkunin í því frumvarpi sem við erum að ræða hér, um lækkun á brennivíni, sígarettum og bensíni, skili sér ekki út í verðlagið. Vegna þess að upphæðin er svo lág verður erfitt að hafa eftirlit með því. Ég óttast að þetta skili sér ekki út í verðlagið og ég tek undir áhyggjur ASÍ þegar það telur hér um ofmat að ræða varðandi lækkun á vísitölu neysluverðs vegna þessa frumvarps. Þar er áætlað að lækkunin sé 0,08%, en ASÍ telur með útreikningum sínum líklegt að lækkunin verði 0,04% til 0,05% að því gefnu að lækkunin skili sér að fullu út í verðlagið.

Það hefur orðið töf á afgreiðslu þessa frumvarps og menn velta fyrir sér af hverju það er. Hafði hæstv. ríkisstjórn eða meiri hlutinn í þinginu ekki áhuga á að afgreiða sem fyrst þessi fyrirheit um lækkun gjalda?

Enn einu sinni segi ég að það veldur mér vonbrigðum að nefndin skuli ekki hafa tekið tillit til óska ASÍ og fleiri samtaka launþega um að fara frekar í lækkanir á gjöldum til heilbrigðisþjónustunnar en að velja þessa vöruflokka.