143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[23:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Sem framsögumaður þessa máls tel ég mér skylt að fara í gegnum umræðuna. Ég ræddi fyrr í ræðu minni um ástæður þess að málinu hefur seinkað. Þá hafði ég gleymt því að mikil umræða var um þingsályktunartillögu um að draga til baka umsókn um aðild að Evrópusambandinu en það tafði líka, auk þess var nefndadagur í gær og þetta mál var á dagskrá 2. maí, á föstudaginn, en komst ekki til umræðu vegna mikillar umræðu um önnur mál sem eru reyndar líka á dagskrá í dag.

Umræðan hefur verið löng og ströng, 95 ræður hafa verið haldnar, og hefur tekið tæpa sjö tíma og farið um nokkuð víðan völl. Menn hafa rætt um auðlegðarskatt, veiðigjöld, skráningargjöld háskóla, heilbrigðisgjöld, brennivínsdeild Sjálfstæðisflokksins, hvað sem það nú er, og landsfundur og stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins hefur verið einum hv. þingmanni mjög hjartfólgið.

Það hefur nokkuð mikið verið rætt um að sá tími sem þessi lækkun gildir hafi verið styttur, í stað þess að taka gildi 1. mars á hún að taka gildi 1. júní. Það er af eðlilegum ástæðum, 1. maí er liðinn og þetta eru neyslugjöld sem ekki er hægt að leggja á aftur í tímann, það er ekki hægt að lækka skatta aftur í tímann. Það er því útilokað annað en að miða við 1. júní. Þá erum við að tala um sjö mánuði í staðinn fyrir tíu. Menn hafa rætt töluvert hvað það er mikil lækkun.

Menn hafa líka rætt hérna, merkilegt nokk, jafnvel þeir sem eru í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að það hafi verið lagið að taka inn færri gjöld og jafnvel hækka þau af því að tíminn er styttur, að það hefði átt að hækka þau um 7/10 eða 1,4% í staðinn fyrir 1%. Það var aldrei rætt í nefndinni. Það hefur aldrei nokkurn tímann verið rætt í nefndinni og heldur ekki í nefndarálitum sem birtust þó tvö frá 1. og 2. minni hluta. Það er ekki rætt að þessi gjöld verði hækkuð, engin breytingartillaga kom þar fram um það eða neitt annað, þannig að þetta er dálítið seint fram komið.

Þetta frumvarp er að mestu leyti krafa samningsaðila á ríkisstjórnina sem hún gerði samkomulag við um að fara þessa leið. Ég hef enga trú á svona smáskammtalækningum. Ég hef ekki sömu trú og sumir aðila vinnumarkaðarins að hægt sé að hafa verðlagseftirlit eða fylgjast með lækkunum eða lækka um 1% hér og 1% þar. Ég hef miklu meiri trú á því sem hagfræðin segir, að halli á ríkissjóði, raunverulegur halli á ríkissjóði og raunverulegur halli á öðrum opinberum aðilum, eins og sveitarfélögum, veldur verðbólgu. Hann veldur verðbólgu vegna þess að þar er verið að búa til skuldbindingu til framtíðar, það er verið að prenta peninga sem fara út í neysluna og auka eftirspurn og þar með verðbólgu.

Herra forseti. Nú hefur það gerst eftir að þessi ríkisstjórn tók við og kom með hallalaus fjárlög, og vonandi nokkurn veginn raunveruleg, ég hef reyndar dálitlar efasemdir um það, að verðbólgan var í janúar 3,1%, ég er að tala um 12 mánaða verðbólgu, í febrúar 2,1%, í mars 2,2% og í apríl 2,3%. Í þrjá mánuði samfleytt hefur verðbólga verið undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, meira að segja 2,5% markmiðunum. Samt hefur þetta frumvarp ekki tekið gildi, þrátt fyrir að verðbólgan hafi verið þetta lág. Ég held að aðilar vinnumarkaðarins ættu miklu frekar að horfa á afganginn á ríkissjóði og gæta þess að því sé haldið frekar en að vera að horfa á smálækkun á sköttum hér og þar.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, enda hefur þingmönnum fækkað mikið í salnum. Þessari umræðu, sem hefur verið nokkuð löng, er hér með væntanlega lokið.