143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég er að velta fyrir mér hversu mikil ánægja ríkir í samfélaginu vegna góðs árangurs íþróttamanna okkar. Mér finnst gott að minnast á það núna í sumarbyrjun að þjóðin þjappar sér saman um íþróttafélögin sín. Við höfum horft á hestaíþróttir í allan vetur, körfuboltinn er búinn að vera með úrslitakeppni, handboltinn hefur verið með úrslitakeppni og fótboltinn er byrjaður að rúlla á völlunum, það skapar mikla gleði og ánægju í samfélaginu. Mér finnst það mikilvægt að við hugsum til þess að skipuleg íþróttastarfsemi í landinu er besta forvörnin fyrir unga fólkið. Við á hinu háa Alþingi þurfum að hafa það í huga þegar við erum að úthluta fjármagni til hinna ýmsu málaflokka að standa við bakið á íþróttahreyfingunni eins og svo mörgum öðrum auðvitað, en þar fer fram merkilegt og gott starf.

Það leiðir ekki síður af sér þá miklu ánægju sem er í samfélaginu, í einstökum sveitarfélögum þar sem íþróttafólkið hefur náð góðum árangri, það þjappar fólkinu saman og menn ganga fram í fylkingum og gleðjast yfir góðum árangri sinna manna. Það er líka mikilvægt fyrir okkur að vita að fólkinu í landinu líður vel. Þannig þurfum við að hafa það hérna í þinginu og við þurfum að haga störfum okkar þannig að fólkið í landinu hafi ríka ástæðu til þess að gleðjast yfir því. Hér fer margt merkilegt og mikilvægt fram og þess vegna er mikilvægt að þau skilaboð sem héðan koma séu jákvæð fyrir samfélagið og við stöndum okkur í þeim störfum sem við sinnum.