143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er nú á mjög svipuðum nótum og tala þar sem nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég er orðinn mjög hugsi yfir því hvert hæstv. ríkisstjórn er að fara með þessi svokölluðu skuldaleiðréttingamál. Það hafa verið að tínast inn upplýsingar sem sýna fram á að kostnaður vegna þessara aðgerða verður mun meiri fyrir ríki og sveitarfélög en látið var í veðri vaka í þeim greinargerðum sem fylgdu frumvörpunum tveimur til þings. Eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttur nefndi er til dæmis matið á líklegu tapi Íbúðalánasjóðs á bilinu 7,5–24 milljarðar kr.

Það er líka ljóst að kostnaður sveitarfélaganna og ríkisins í skilningnum tapaðar framtíðartekjur er mun meiri en fylgdi með greinargerðum stjórnarfrumvarpanna og um það höfum við núna greinargerð frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem menn brutu odd af oflæti sínu og reiknuðu með eðlilegum hætti inn líklega ávöxtun fjármunanna ef þeir hefðu ella verið greiddir inn í séreignarsparnaðarkerfið. Þá er framtíðartekjutap eða samtals tekjutap ríkis og sveitarfélaga á næstu þremur árum plús framtíðartekjutapið um 43 milljarðar í dekkstu sviðsmynd hjá ríkinu og 21 milljarður hjá sveitarfélögunum.

Eins og þetta hafi ekki verið nóg þá tók meiri hlutinn sig til í gær og jók umfang aðgerðanna varðandi séreignarsparnaðinn með því að hækka fjárhæðarmörkin úr 500 þús. kr. í 750 þús. kr. fyrir hjón og samskattaða aðila, sem gerir hvorutveggja að aðgerðirnar nýtast þá í enn ríkara mæli tekjuhæsta fólkinu með meiri skattaeftirgjöf og eykur enn kostnað ríkis og sveitarfélaga, sendir stærri reikning inn í framtíðina. Samt virðist meiri hlutinn ætla sér að afgreiða þessi mál án þess að nokkurt nýtt heildarkostnaðarmat verði gert, og það (Forseti hringir.) held ég að sé ekki boðlegt, herra forseti.