143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér kom ég upp til að vera á svipuðum nótum og hv. þm. Ásmundur Friðriksson, að tala um hin jákvæðu skilaboð sem við getum gefið þjóðinni og hvað samkennd fólks er mikils virði. Ég greip með mér grein úr tímariti sem gefið er út af Hjartaheillum. Í því er merkileg grein um rannsókn á íbúum í Bandaríkjunum þar sem þessi sterku samfélagstengsl hafa jafnvel áhrif á streitusjúkdóma, svo sem eins og hjartasjúkdóma, vegna þess að öryggiskennd er manninum afskapleg mikilvæg, að einhver standi við bakið á honum.

Það skýtur því skökku við að hér skuli stöðugt vera talaðar niður góðar tillögur eins og um höfuðmarkmið þessarar ríkisstjórnar um að hjálpa fjölskyldum í þessu landi að rísa á lappirnar aftur. Að vinstri menn skuli í ræðu eftir ræðu tala niður þetta höfuðmál okkar um að leiðrétta hag fjölskyldnanna í landinu. (Gripið fram í: Ríku fjölskyldnanna.) Síður en svo, það stendur hér að það sé mjög gott að skapa samfélagskennd. Það bætir heilsuna, hv. þingmaður.

Í hálft ár hefur verið unnið að því að koma þessum tillögum í gegn. Hér hefur ákveðið embætti fylgst með og fengið að vera með frá byrjun. Það segir í umsögn sinni til nefndarinnar að það sé fátítt að það fái að starfa með alveg frá upphafi eins og raunin var hér. Mér finnst mjög sérkennilegt að það komi svo fram á lokamínútunni að þetta embætti geti ekki skilgreint hvað heimili er.

Ég kíkti í orðabók Marðar Árnasonar og þar er talað um (Forseti hringir.) að heimili sé bústaður til einkanota manns að staðaldri. Ég held að við getum bara haft þá skilgreiningu.