143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það reynist orðið stjórnarflokkunum erfitt að verja tillögur sínar um skuldalækkanir þegar staðreyndirnar tala sínu máli. Hér er fyrst og fremst verið að hjálpa því fólki sem á síðasta kjörtímabili taldist það eignamikið að það fékk ekki þær leiðréttingar sem þá voru í boði. Það hefði verið nær að mæta þeim hópum sem eiga vissulega enn erfitt. Því miður er Framsóknarflokkurinn alltaf staddur á sama stað, hann getur ekki efnt hin digurbarkalegu loforð sem voru gefin fyrir síðustu kosningar og er auðvitað kominn í algjöra nauðvörn.

En ég ætlaði ekki að tala um þetta heldur um Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Við þekkjum þá sögu að heimamenn hafa barist hart fyrir því að halda sjálfstæði háskólans heima í héraði. Það varð síðan niðurstaðan fyrir stuttu að hæstv. menntamálaráðherra lýsti því yfir að af sameiningu yrði ekki. Töldu menn að þá væri komin ákveðin niðurstaða sem ætti að vinna út frá, en mér sýnist að svo sé ekki, heldur sé leynt og ljóst verið að friða heimamenn fram yfir sveitarstjórnarkosningar og þetta sé einn stór blekkingaleikur. Skólanum er áfram gert að greiða háar fjárhæðir á hverju ári af gömlum skuldahala sem mun koma niður á starfseminni. Uppsagnir eru fram undan hjá starfsfólki og kennurum. Á hverjum ætli þær muni bitna helst? Maður er ansi hræddur um að það komi niður á því fólki sem hefur haft uppi mikla gagnrýni á áform hæstv. menntamálaráðherra um að sameina þessa skóla.

Það er ekki eðlilegt að menn tali um að hætta við sameiningu en séu að vinna að (Forseti hringir.) allt öðrum hlutum og að fyrrverandi menntamálaráðherra, (Forseti hringir.) Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, styðji hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) í því að halda áfram að tala fyrir sameiningu.