143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að gera útlendingaeftirlitið að umfjöllunarefni. Það var verið að vísa úr landi manni frá Sýrlandi sem er giftur íslenskri konu. Hann var eins og svo margir aðrir að flýja stríðsástandið þar.

Mér finnst umhugsunarefni hversu fáum flóttamönnum frá Sýrlandi við höfum veitt skjól á Íslandi. Mér finnst enn meira umhugsunarefni að manneskja sem kemur þaðan til Íslands og sækist eftir því að fá skjól sé send til baka miðað við hvernig ástandið er þar. Hugarfarið minnir um margt á það sem gerðist hér fyrir miðbik síðustu aldar, að Ísland sé of lítið til að geta tekið á móti fólki í neyð. Símsvari hjá stofnuninni sem heitir Útlendingastofnun og á að sjá um málefni útlendinga er bara á íslensku og það hefur verið látið viðgangast í langan tíma. Og þetta hugarfar að moka út fólki sem hefur beðið hér eftir málsmeðferð í tvö ár, núna er því vísað úr landi í algjöra óvissu. Þetta hugarfar að fangelsa fólk fyrir að koma á fölsuðum vegabréfum. Vegabréfin eru fölsuð af því að fólk kemst ekki úr landinu nema finna einhverja aðra leið. Annars er líf þessa fólks í hættu og það drepið.

Mér finnst að við þurfum að breyta þessu hugarfari og útlendingaeftirlitið þarf að byrja strax og stoppa þessa atlögu að fólki sem er að leita sér hjálpar.