143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér hafa menn rætt þau tvö frumvörp sem afgreidd hafa verið úr efnahags- og viðskiptanefnd og tengjast annars vegar séreignarsparnaðarfrumvarpi vegna niðurgreiðslu á fasteignalánum og hins vegar leiðréttingu á verðtryggðum fasteignalánum. Þessi frumvörp hafa verið afgreidd úr efnahags- og viðskiptanefnd og eins og vera má og ljóst var frá upphafi eru þau ekki í almennri sátt heldur er það meiri hluti versus minni hluti.

Það er dálítið harkalegt að áður en málin koma hér á dagskrá skuli koma einstaklingar og fullyrða án þess að hafa jafnvel þau gögn sem liggja fyrir, sumir hafa þau, aðrir ekki, og tala sýknt og heilagt um að ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hygli þeim ríku í samfélaginu á kostnað hinna fátæku.

Virðulegur forseti. Þessi klisja í umræðunni er með öllu óásættanleg. Það er afar sérstakt að heyra fólk tala með þessum hætti og ætla ég að leyfa mér að skreppa örstutt í fortíðina. Sama fólk lagði hér til í júní 2009 og 2010 að á þjóðina yrðu lagðir svokallaðir Icesave-reikningar. Ég veit að nú horfa á mig hv. þingmenn Vinstri grænna og segja: Byrjarðu eina ferðina enn. En þetta var svona, virðulegur forseti. Nú kemur þetta fólk og ræðir um að hér sé verið að leggja byrðar á landsmenn og samfélagið almennt þegar gerð er tilraun til þess að koma til móts við fólk sem er með fasteignalán í mismunandi stöðu.

Virðulegur forseti. Bíðum eftir frumvörpunum, tökum þau og tökum svo samhengið í því hvaða byrðar er verið að leggja á ríkissjóð og samfélagið allt og skoðum það í heild.