143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að ræða tillögu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála en vegna umræðunnar sem hefur verið í þingsal í morgun um skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar finnst mér tilvalið að rifja upp þær staðreyndir sem til eru um fyrrverandi skuldaaðgerðir og núverandi skuldaaðgerðir. Núverandi skuldaaðgerðir eru um 150 milljarðar að umfangi, 60% aðgerðanna ná til heimila sem hafa heildarárstekjur undir 8 millj. kr., 25% ná til heimila sem eru með árstekjur undir 4 millj. kr. og tæplega helmingur árstekna nær til heimila sem hafa heildarárstekjur undir 6 millj. kr. Niðurfærslan er hærri hjá fjölskyldum sem hafa mörg börn á framfærslu sinni en öðrum.

Á síðasta kjörtímabili voru um 45 milljarðar kr. færðir niður vegna m.a. 110%-leiðarinnar og nýttust þær aðgerðir um 10% heimila í landinu. Hluti þeirra heimila sem fékk þær niðurfærslur fékk að meðaltali 15 millj. kr. niðurfærslu fyrir heimilin og tölur upp á 26 millj. kr. niðurfærslu komu á ákveðinn hluta heimila. Síðan gagnrýna sömu þingmenn núverandi ríkisstjórn fyrir að koma til móts við efnameiri fjölskyldur. Hvað er það þá þegar fólk fær 15–26 millj. kr. niðurfærslu fyrir heimilin? Er það ekki tekjuhátt fólk? Mér finnst allt í lagi að vísa þeirri gagnrýni heim til föðurhúsanna þar sem hún á heima. Hér er verið að standa með fjölskyldum sem hafa verið utangarðs undanfarin fimm ár og hafa ekki fengið neina aðstoð. Þau hafa átt að bjarga sér sjálf.