143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Það er áhugavert að hlusta á þessa umræðu hér. Hún er eins og oft áður, frekar í slagorðastíl. Það var ágætt hjá hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur og fleiri þingmönnum að fara bara yfir staðreyndirnar í þessum málum. Hver og einn getur tekið mið af því. Menn geta haft allar skoðanir á þessum hlutum en þegar búið er að taka út hvaða hópar fá þessar tilfærslur kemur í ljós að gífuryrðin um að þetta snúist allt um efnafólk standast ekki.

Ég verð að viðurkenna að ég er búinn að heyra þetta mjög oft, að verið sé að hjálpa efnameira fólki og síðan fari menn í sérstakar aðgerðir og allra handa aðgerðir til að hjálpa því efnaminna. Hvernig hefur það komið út fyrir efnaminna fólk? Hvað hafa til dæmis þeir aðilar sem gengið hafa harðast fram í því að sjá til þess að ríkið sé á húsnæðismarkaði, gert til að hafa kerfi til að hvetja fólk til að skuldsetja sig? Hvernig hefur það komið niður á efnaminna fólki?

Ég get alveg sagt hvernig það hefur komið niður á efnaminna fólki. Það hefur fengið reikninginn fyrir þessum góðverkum stjórnmálamannanna. Nú er búið að reikna það út að við erum búin að setja 50 þús. milljónir í húsnæðisbankann. Hér var talað um Landspítalann, það er langt í nýja byggingu Landspítalans en það er bara bein útgreiðsla. Ef við tökum allt saman síðustu tíu árin eru það 100 milljarðar, sem er rúmlega nýr Landspítali. Hér kom hv. þingmaður, formaður Vinstri grænna, og kallaði eftir nýjum Landspítala. Það er ágætt að menn skoði hvernig umræðan var um ríkisbankann á húsnæðismarkaði. Hverjir gengu harðast fram í nafni þess að hjálpa þeim sem efnaminni væru, að koma honum á þann stað þar sem hann er núna? Það er sama fólkið sem hefur hæst núna (Forseti hringir.) og segir að verið sé að hjálpa þeim sem eru efnameiri. Það er nákvæmlega sama fólkið.