143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

störf þingsins.

[11:05]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi Icesave, það hvarf ekkert. Ég veit ekki betur en að menn séu þessa dagana á fullu að reyna að semja um greiðslu á 300 milljarða skuldabréfi milli nýja Landsbankans og gamla Landsbankans sem er Icesave-skuld í raun og veru. Það er verið að semja um það mál og þurfti alltaf að semja um það.

Ég kem hingað upp til að tala um skuldaleiðréttingarnar sem voru afgreiddar núna úr efnahags- og viðskiptanefnd. Það er þetta sjónarmið sem ég heyrði áðan hjá hv. þingflokksformanni Framsóknarflokksins, Sigrúnu Magnúsdóttur, að hlutirnir eru teiknaðir þannig upp að þeir sem eru á móti þessum aðgerðum séu einhvern veginn á móti því að gera eitthvað fyrir heimilin.

Ég vil aðeins fara yfir það. Fjáraustur úr ríkissjóði upp á 80, 100, 140 eða 150, jafnvel 200 milljarða ef allt er tekið með í reikninginn, algjörlega út í loftið án þess að hjálpa þeim sem eru í raunverulegum greiðsluvanda, það liggur alveg fyrir, ég sé ekki hvernig það er alveg augljóst að þetta sé það besta sem við getum gert fyrir heimilin.

Með ríkissjóð sem þarf peninga í nauðsynlegt viðhald, í nauðsynlega uppbyggingu í velferðarkerfinu, menntakerfinu, í öllum innviðum samfélagsins. Ég get ekki séð að það sé það besta fyrir heimilin að fresta öllu því fyrir þetta. Ég get ekki séð að það sé það besta fyrir heimilin að grípa til aðgerða sem líklega munu auka einkaneyslu á tímum sem við þurfum þess ekki, alls ekki. Hún líklega eykur viðskiptahalla. Ég get ekki séð að það sé það besta fyrir heimilin.

Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er ekkert gert til að reyna að rökstyðja þessar aðgerðir út frá því að þær séu skynsamleg hagstjórn fyrir heimilin. Eftir stendur að þetta er bara reikningur inn í framtíðina og börnin okkar borga. (Forseti hringir.) Það er ekki gott fyrir heimilin.