143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[11:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er ákaflega illa útfærð aðferð til að skila þessum meintu 460 milljónum inn í lækkun gjaldskrárhækkana og verðlagsuppfærslna í fjárlögum. Í fyrsta lagi verður nú árið næstum hálfnað þegar þetta kemur til framkvæmda og þar af leiðandi verður ekki staðið við fyrirheitin nema rétt rúmlega að hálfu. Í öðru lagi er valin sú leið að smyrja þessu út yfir mjög marga liði í fáeinum aurum eða tugum aura í hverju tilviki, bensín, áfengi, tóbak, olíugjald, þungaskattur, raforkuskattur, kolefnisgjald o.s.frv. Það verður því ekki nokkur leið að fylgjast með því að þessar verðlækkanir skili sér raunverulega á endanum til neytandans.

Hámarki nær þessi fáránleiki þegar raforkuskatturinn er lækkaður um 1/100 úr eyri, 1/1.000 úr krónu. Það er nú meira framlagið til verðstöðugleika í landinu. Þarna er valin mjög gölluð leið í stað þess að velja út fáa og einstaka liði og lækka þá umtalsvert þannig að hægt væri að fylgja þeirri lækkun eftir og líkur væru á að hún skilaði sér út í verðlagið og kæmi neytendum til góða. (Forseti hringir.) Það er ekki gert. Þetta er meingallað frumvarp (Forseti hringir.) og ríkisstjórninni auðvitað til skammar að standa svona aumingjalega og seint (Forseti hringir.) við það litla sem hún lofaði.