143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[11:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það mál sem við greiðum hér atkvæði um kom til þingsins 13. febrúar. Ég harma hversu langan tíma það hefur tekið og einkum að ekki hafi tekist samstaða um það í þinginu að veita því algjöran forgang. Það hefur verið á forræði þingsins frá því að það var lagt fram 13. febrúar. Ég hefði gjarnan viljað sjá það afgreitt mun fyrr.

Málið snýst um það að löng venja er fyrir því að hinir ýmsu krónutöluskattar og -gjöld taki breytingum í samræmi við verðlag. (Gripið fram í.) Að þessu sinni varð það niðurstaða ríkisstjórnarinnar að mæla fyrir því í tengslum við samþykkt fjárlaga. Síðan er dregið úr og fært niður fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans. Og fleira var gert þegar skrifað var undir kjarasamninga, því var lofað að út þetta kjörtímabil mundu þessi krónutölugjöld og þessir krónutöluskattar aldrei hækka umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans. (Forseti hringir.) Það er mikilvægt framlag. Við það verður staðið og hér er verið að lækka gjöld og álögur á íbúana í landinu sem allir hljóta að vera sammála um með því að samþykkja það.