143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[11:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að setja þetta mál í rétt samhengi. Það var lagt fram í framhaldi af því að skrifað var undir kjarasamninga og þetta var meðal þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir til að tryggja að sátt gæti tekist á vinnumarkaði. Hún tókst, og nú hafa verið greidd atkvæði um samningana og það eru í gildi kjarasamningar í dag.

Þetta mál er meðal þess sem ríkisstjórnin vildi beita sér fyrir og felur það í sér að þessi tilteknu krónutölugjöld og skattar hækka þá ekki nema um 2% á þessu ári. Hverju hefur þetta skilað? Verðbólgan er um 2%, ekki út af þessu máli sérstaklega (Gripið fram í.) heldur út af aðgerðum ríkisstjórnarinnar, og nú þegar þetta mál verður afgreitt mun það leiða til þess að þeir liðir þessa máls, sem mælast í vísitölu neysluverðs, munu lækka, þeir munu lækka í framhaldinu. (Forseti hringir.) Þetta er árangurinn sem við töluðum um fyrir kosningar, það er með svona málum sem við ætlum að undirbyggja stöðugleika og (Forseti hringir.) vöxt í samfélaginu og við munu halda því áfram.