143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[11:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að minna hv. þingmenn á það, einkum ýmsa þingmenn í stjórnarliðinu sem ég var með í kosningabaráttu fyrir um rúmu ári og héldu svo fallegar ræður um áhuga sinn á því að bæta samgöngur í landinu, ég man þetta svo vel. Það voru svo hjartnæmar ræður og væntingarnar sem voru reistar víða í byggðum landsins voru ekkert smáræði um að nú kæmi ríkisstjórn og flokkar sem mundu heldur betur brjóta í blað og setja í gang stórfellda uppbyggingu vegakerfisins og samgangna.

Það hefur nú farið á aðra leið og vegamálin og samgöngumálin sennilega harðar leikin en í nokkurn annan tíma, fá verri útreið núna en á botni kreppunnar og hér er í viðbót verið að skerða tekjur Vegasjóðs sérstaklega. Ríkisstjórnin valdi að útfæra þetta m.a. þannig að það kemur þungt niður á sérstaka bensíngjaldinu og hinum mörkuðum tekjum Vegasjóðs, sem var ástæðulaust með öllu ef ríkisstjórnin hefði valið að taka tekjutapið á ríkissjóð og láta almenna bensíngjaldið taka á sig lækkunina.