143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[11:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér ræðum við lækkun á svokölluðum raforkuskatti sem er auðvitað sáralítill. Ég vil í stóra samhenginu lýsa undrun minni á því að menn komi ekki sterkar að kjarasamningum á almenna markaðnum. Menn þekkja það að kjarasamningarnir voru felldir af helmingi félaga innan ASÍ eftir þá samninga sem eru forsenda þess að ríkisvaldið fór í þessar aðgerðir. Þessar aðgerðir eru hvorki fugl né fiskur. Stéttarfélögin hafa óskað eftir því að breyta áherslum þannig að þær nýtist láglaunafólki félaganna best, eins og lækkun á komugjöldum og lækkun í heilbrigðisþjónustunni þar sem hafa orðið mjög miklar hækkanir frá áramótum. Þetta er svo mikil sýndarmennska að það nær ekki nokkru tali að bjóða upp á slíkt.