143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

vextir og verðtrygging.

402. mál
[11:35]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, sem framlengja bráðabirgðaákvæði nr. XIV í lögum nr. 151/2010 og heimila uppgjör krafna, heimila að gerðar verði kröfur vegna ólögmætra gengislánasamninga.

Ákvæðið átti samkvæmt efni sínu að renna út 16. júní nk., enda ekki neitt sérákvæði sett um fyrningarfrest í hinum upphaflegu lögum sem sett voru í kjölfar gengislánadómanna 2010.

Hér er farin sú leið vegna þess að eins og alþjóð er kunnugt hafa orðið umtalsverðar tafir á því og gengið — það er dálitlar róstur í salnum, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) En þar sem á því hafa orðið umtalsverðar tafir að mál hafi gengið fram í dómskerfinu með fullnægjandi hætti og fordæmi dómstóla þróast á liðnum árum þá liggur fyrir að þessi fjögur ár sem lagabreytingin frá 2010 skapaði til svigrúms, til að halda fram kröfum vegna uppgjörs ólögmætra gengislánasamninga, mun ekki duga.

Frumvarpið er flutt af nefndinni í heild. Það var tekið til nefndar og gestir komu á fund nefndarinnar frá umboðsmanni skuldara, frá fjármálafyrirtækjum, frá Samtökum iðnaðarins, Hagsmunasamtökum heimilanna og frá Neytendasamtökunum. Vert er að geta þess að allir gestir voru því fylgjandi að fyrningarfresturinn yrði lengdur en nokkur áherslumunur var um það hversu lengi það þyrfti að vera.

Það kom líka fram fyrir nefndinni að þetta uppgjör krafna hefði gengið mun hægar fyrir sig en von var á við setningu laganna og það þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hefði á sínum tíma heimilað aðilum Samtaka fjármálafyrirtækja og Dróma að viðhafa samstarf í því skyni að liðka fyrir úrlausn. Ekki verður því hjá því komist, að mati nefndarinnar, að skoða markmið frumvarpsins út frá hagsmunum beggja aðila kröfuréttarsambandsins og ljóst að hagsmunir beggja mæla með lengingu fyrningarfrests uppgjörskrafna. Það var sérstaklega rætt í meðförum nefndarinnar hvort efni væru til að stytta fyrningarfrestinn en niðurstaða nefndarinnar varð sú að sú lenging fyrningarfrests sem lögð er til í hinu upphaflega frumvarpi sé hæfileg. Miðað við þær upplýsingar sem fengust frá hagsmunaaðilum, og þá sérstaklega Samtökum iðnaðarins, eru góðar líkur á því að það takist að ljúka þeim málum sem enn eru í meðferð í dómskerfinu innan þess tíma sem með þessum hætti er skapaður til frekara uppgjörs þessara krafna.