143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

vextir og verðtrygging.

402. mál
[11:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er mjög ánægjulegt að náðst hafi um þetta samstaða í nefndinni. En ég vildi gjarnan spyrja hann betur út í tímalengdina. Það var rætt nokkuð mikið í nefndinni hvort fjögurra ára lenging þessa fyrningarfrests dygði eða hvort fara þyrfti í sex ár, þ.e. samtals tíu ár. Einnig hvort það nægði að fara í tvö ár í viðbót eða átta ár samtals. En það er ljóst, eins og hv. þingmaður sagði, að mörg mál eru óútkljáð í dómskerfinu og mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga.

Mig langar að spyrja hann út í það hvort nægilegt sé að hafa fjögur ár í viðbót, að hans mati, og hvort það sé tryggt að þeim málaferlum sem eru í gangi í dag sé þá lokið.