143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

vextir og verðtrygging.

402. mál
[11:41]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og líka fyrir samstarfið í hv. nefnd þar sem góð samstaða náðist um málið. Það er mjög ánægjulegt.

Það er auðvitað alltaf erfitt að lofa einhverju um tímalengd í þessum efnum en miðað við þær upplýsingar sem fengist hafa og miðað við það að fordæmin hafa skýrst í sjálfu sér frá því að Hæstiréttur breytti um fordæmi í febrúar 2012 og eðli máls samkvæmt eru svo sem ekki nema tvö ár liðin síðan þá. Það vakti kannski upp vangaveltur um hvort tvö ár til viðbótar dygðu nú. En í ljósi þess hversu flækjustig þessara mála er mikið og hversu mikið hefur borið á því að fjármálafyrirtæki hafni fordæmisgildi einstakra dóma og í ljósi þess að tilteknir þættir eins og fjármögnunarleigusamningar, sem eru mjög fyrirferðarmiklir hjá fyrirtækjum, jafnt litlum sem stórum, þar sem tækjakaup liggja undir allt frá hrærivél fyrir bakara og upp í stóra lyftara og stórvirkar vinnuvélar, þá á í sjálfu sér alveg eftir til dæmis að leiða til lykta efniságreining um þá tegund samninga. Í því ljósi mundi ég halda að fjögur ár frá júní nk. ættu að geta dugað, því að búið er að leiða til lykta ákveðinn þátt ágreiningsins. Í öllu falli er alveg ljóst af þeim fordæmum sem rakin voru í greinargerð með hinu upphaflega frumvarpi, sem nefndin stóð að, að fordæmin eru algjörlega skýr um það að ef þetta dugar ekki hefur löggjafinn fullt forræði á því að framlengja frestinn frekar þegar þingmenn standa, sem þá verða í þessum sal eftir fjögur ár, frammi fyrir því að fresturinn er við það að renna sitt skeið á enda.