143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

vextir og verðtrygging.

402. mál
[11:44]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað varðar þakkir fyrir samstarfið í nefndinni. Ég get sagt persónulega, vegna þess að þau lög sem hér er verið að framlengja bráðabirgðaákvæði við hafa oft verið við mig kennd og ekki alltaf með jákvæðum tilvísunum, að það er mér mikið gleðiefni að myndast skuli hafa órofa samstaða um það í nefndinni að standa saman að því að framlengja þær réttarbætur sem þessi lög kváðu á um. Það er svolítið gaman í ljósi forsögunnar að það skuli vera eina breytingin sem löggjafinn hafi gert á lögunum sem sett voru í desember 2010 og hafa oft verið við mig kennd, þ.e. að framlengja gildistíma þeirra.

Að því er varðar síðan það sem hv. þingmaður rakti um hagsmunina sem að baki liggja þá var það líka rætt í nefndinni og kannski rétt að það komi fram í ræðustól Alþingis að við ræddum dálítið um hver árangurinn hefði verið af samráðinu sem Samkeppniseftirlitið veitti heimild fyrir á sínum tíma í því skyni að leiða þessi mál hratt til lykta. Það fer ekki á milli mála þegar maður horfir á hversu hægt hefur gengið og hversu mikið hefur borið á því að fjármálafyrirtækin neiti að viðurkenna fordæmisgildi einstakra dóma sem síðan hafa fallið, hafa jafnvel ekki hirt um að áfrýja til að fá efnislega niðurstöðu í mál sem þegar var búið að viðurkenna að skiptu máli til að fá efnislega leiðsögn um frekari úrlausn, að verkefni nefndarinnar á næstu mánuðum hlýtur að vera að fara aðeins yfir reynsluna af þessu samráði, hvort það hafi verið til góðs og hvað megi læra af þeirri reynslu. Er hægt að treysta fjármálafyrirtækjum til að regla sjálf sig með þessum hætti?