143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni.

268. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. allsherjar- og menntamálanefnd um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni. Þessi tillaga á sér nokkurn aðdraganda í þinginu en fyrst var það svo að Eiríkur Rögnvaldsson, frá Máltæknisetri og prófessor við Háskóla Íslands, ræddi það í sjónvarpsþætti að staða íslenskrar tungu væri ótrygg nema gripið yrði til sérstakra ráðstafana og tók svo til orða að íslenskan gæti ella orðið útdauð á þessari öld.

Í kjölfarið á þessum ummælum kom málið upp í þinginu og sú sem hér stendur vakti máls á því að það væri rétt að þingið tæki málið til sérstakrar skoðunar og boðaði þingsályktunartillögu þá sem er til umræðu. Í góðu samráði við alla fulltrúa í allsherjar- og menntamálanefnd tókst samstaða um að tillagan yrði flutt af nefndinni í heild, ekki síst vegna þess að um er að ræða viðfangsefni sem varðar kannski það sem er okkur dýrmætast sem er um hvað tilvera okkar snýst á þessu landi, sagan okkar og tungan og vitundin um að þau verðmæti gætu verið forgengileg á stafrænni öld. Það varð til þess að þessi ágæta tillaga varð til í góðu samstarfi við þá sem best þekkja til.

Tillagan byggir auðvitað á vinnu sem þegar hefur legið fyrir. Alþingi samþykkti þingsályktun um íslenska málstefnu 12. mars 2009 en þar lá til grundvallar ritið Íslenska til alls, tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu. Þar er einn kaflinn sem fjallar sérstaklega um íslensku í tölvuheiminum. Þar er sett fram það meginmarkmið að „íslensk tunga verði nothæf — og notuð — á öllum þeim sviðum innan tölvu- og upplýsingatækninnar sem varða daglegt líf alls almennings“.

Lokaskýrsla nefndar sem mennta- og menningarmálaráðuneytið skipaði til að fylgja eftir þessari stefnu, sem var gefin út sumarið 2012 og ber heitið Íslenska í tölvuheiminum og svo haustið 2012 annað rit, Íslensk tunga á stafrænni öld, var afrakstur viðamikils Evrópuverkefnis sem Máltæknisetur tók þátt í og ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu árið 2012 um stöðu og horfur íslenskunnar innan tölvu- og upplýsingatækninnar — öll þessi rit og allar þessar skýrslur greindu frá því að mikið skorti á að íslensk tunga byggi við þann tæknilega stuðning sem er henni nauðsynlegur til að eiga trygga framtíð á þessu mikilvæga sviði. En raunin var sú að staðan er mjög alvarleg í samanburði við stöðu evrópsku tungumálanna eða þannig að af 30 tungumálum í Evrópu stendur íslenskan næstverst að vígi hvað þetta snertir.

Nefndin fjallaði um þessa tillögu til þingsályktunar og fékk til sín allnokkra gesti, Baldur Sigurðsson frá menntavísindasviði Háskóla Íslands, Kolbrúnu Halldórsdóttur frá Bandalagi íslenskra listamanna, Jón Guðnason frá Háskólanum í Reykjavík, Heiðdísi Dögg Eiríksdóttur frá málnefnd um íslenskt táknmál, áðurnefndan Eirík Rögnvaldsson frá Máltæknisetri og Pétur H. Hannesson frá Landspítala. Umsagnir bárust líka frá Bandalagi íslenskra listamanna, Háskólanum í Reykjavík, málnefnd um íslenskt táknmál, Máltæknisetri, menntavísindasviði Háskóla Íslands og Pétri H. Hannessyni, yfirlækni röntgendeildar Landspítala.

Tillagan felur sem sé í sér að skipuð verði nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni sem fái það hlutverk að gera aðgerðaáætlun um innleiðingu tiltekinna þátta í opinberri málstefnu, þ.e. notkun hennar í stafrænni upplýsingatækni. Auk þess verði nefndinni falið að kostnaðarmeta innleiðinguna og gera áætlun um fjármögnun hennar.

Nefndin bendir sérstaklega á að fram kemur í ritinu Íslensk tunga á stafrænni öld, sem var afrakstur Evrópuverkefnis þar sem gerð var könnun á stöðu 30 tungumála í Evrópu, að 2/3 tungumálanna eru í hættu, þ.e. þau ná ekki að fylgja hraðri þróun tölvutækninnar og verða því ekki nothæf á mikilvægum sviðum þjóðlífsins í náinni framtíð ef svo fer sem horfir. Íslensk tunga er þar á meðal en hún stendur, eins og áður segir, næstverst að vígi hvað þetta snertir. Í ljósi þessa og mikillar þróunar og hraðrar framvindu upplýsingatækninnar og þeirrar staðreyndar að samskipti á erlendum tungumálum eru að aukast til muna er þróun og útfærsla á máltækni fyrir íslenska tungu afar mikilvæg og auk þess brýn að mati nefndarinnar.

Fram kom á fundum nefndarinnar að einungis 25% landsmanna nota íslenskt notendaviðmót í stafrænni upplýsingatækni. Nefndinni þykir því einsýnt að mikið starf er óunnið við að tryggja framtíð íslenskunnar sem fullgilds þátttakanda í upplýsingasamfélagi nútímans. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi uppbyggingarstarf og nýta þá þekkingu og kunnáttu sem byggð hefur verið upp til þess að koma í veg fyrir að íslenskan dragist enn lengra aftur úr öðrum Evrópumálum í máltæknilegu tilliti.

Þegar Eiríkur Rögnvaldsson kom á fund nefndarinnar, og raunar hefur hann sagt það víðar, benti hann á þá staðreynd að nokkur hliðstæða væri með stöðu íslenskunnar eins og umræðunnar í loftslagsmálum. Alvarleg staða eða ógnin sem er viðvarandi og yfirvofandi er þeirrar gerðar að við finnum ekki sérstaklega mikið fyrir henni frá degi til dags, ekki í deginum í dag. Hins vegar er ógnin það alvarleg að ef ekki verður gripið til ráðstafana kunnum við innan fárra áratuga að vera þar stödd að ekki verði við snúið. Þar er um ákveðna hliðstæðu að ræða. Þess vegna þurfum við að grípa til aðgerða.

Í ljósi þess að með lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, hlaut táknmál opinbera staðfestingu á stöðu sinni beinir nefndin því til þeirra sérfræðinga sem skipa munu nefndina að kanna nýtingu máltækni við varðveislu og miðlun íslensks táknmáls á sviði stafrænnar upplýsingatækni. Þar er að sumu leyti um að ræða allt annað viðfangsefni þar sem við erum kannski fyrst og fremst að tala um skráningu, varðveislu og forsendur sögulegrar og samtímalegrar greiningar þess máls.

Í þingsályktunartillögunni kemur fram að nefndin skuli leggja áætlun sína fram í síðasta lagi 15. maí nk. en í ljósi þess hve skammur tími er til stefnu leggur nefndin til þá breytingu að áætlun nefndarinnar skuli liggja frammi í síðasta lagi 1. september 2014.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið við að fara yfir nefndarálitið og breytingartillöguna og vil í lok máls míns þakka sérstaklega hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða umræðu og gagnlega yfirferð yfir þetta brýna mál. Ég þakka fyrir þann góða samhljóm sem hefur náðst í því að standa vörð um stöðu og þróun íslenskrar tungu.