143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni.

268. mál
[12:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari tillögu og þá ekki síður því að hún hafi verið unnin í góðu samráði og samkomulagi hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Ég fagna því líka að sjá í nefndaráliti hv. nefndar þau viðbrögð sem þessi tillaga hefur fengið.

Ég ætla svo sem ekki að halda hér langa ræðu en þó finnst mér mikilvægt að árétta að þegar svona niðurstöður koma, á borð við þær sem komu fram í skýrslunni sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir fór hér yfir áðan, um íslensku 2012 í tölvuheiminum þá er auðvitað mjög mikilvægt að við sem erum í stjórnmálunum bregðumst við. Það er vissulega rétt og ég get sagt það þar sem ég gegndi á þessum tíma embætti mennta- og menningarmálaráðherra að það er ekkert auðvelt að bregðast við á niðurskurðartímum því að svona hlutir kosta peninga. Það sem þarf kannski að ræða líka í tengslum við afgreiðslu þessarar ágætu tillögu, sem verður vonandi afgreidd hér, er að við verðum að átta okkur á því við fjárlagagerðina að taka mið af því að ef Alþingi ákveður að samþykkja þessa tillögu mun það kosta ákveðna fjármuni.

Sumt getum við gert fyrir íslenska tungu sem kostar ekki neitt, til að mynda að fólk vandi sig í ræðu og riti og hugi að því hvar sem það kemur fram hvernig það talar og hvernig það fer best með málið. En það kostar að halda uppi góðri íslenskukennslu svo dæmi sé tekið. Það kostar að stunda rannsóknir á íslensku og það kostar að fara í þær nauðsynlegu aðgerðir sem þarf að ráðast í við að uppfæra hugbúnað í þeim algengu tækjum sem við nýtum þannig að sá hugbúnaður sé ýmist á íslensku eða geti jafnvel skilið íslensku. Þetta er flóknara en svo að þetta snúist bara um notendaviðmót í tölvum sem eitt og sér kostar mikla fjármuni. Það hefur verið mikil barátta íslenskra stjórnvalda í gegnum tíðina að fá til að mynda þýtt notendaviðmót hjá helstu fyrirtækjum í tölvutækni þegar kemur að hinu almenna notendaviðmóti, en þegar við erum að horfa upp á framtíð þar sem tölvutæknin verður mun fyrirferðarmeiri í nánast öllu, ekki bara til þeirra hefðbundnu verka sem við þekkjum í samtímanum heldur horfum við fram á mjög hraða þróun þar sem fólk mun ræða við slökkvarana heima hjá sér og ísskápana og allt þetta, hvort sem það verður gert með rituðum hætti eða í töluðu máli þá þurfa öll þessi tæki að geta skilið íslensku. Þarna þarf því að fara saman mikil vinna í tæknigeiranum, á sviði tungutækninnar, og á sviði íslenskunnar, að þýða og vinna út frá íslenskri tungu.

Margt gott hefur verið gert. Við þekkjum frábær verkefni — Blindrafélagið hefur til að mynda staðið fyrir talgervli, verkefni sem var einmitt stutt af stjórnvöldum á sínum tíma — alveg gríðarlega mikilvæg verkefni sem öll hjálpa til. Þarna þarf, eins og nefndin leggur til, að gera aðgerðaáætlun og það þarf að áætla í hana fjármuni.

Ég heiti á hv. þingmenn fjárlaganefndar, verði þessi tillaga afgreidd, og hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra að gera sitt til þess að við fáum framlag í þetta strax á fjárlögum næsta árs. Eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir fór yfir líður tíminn hratt og hann getur hlaupið frá okkur í þessu máli.

Við Íslendingar eigum merkilega sögu þegar kemur að málvernd og máleflingu. Við þekkjum öll söguna þegar Rasmus Christian Rask kom hingað til lands og taldi afar líklegt að íslenska yrði ekki töluð hér innan nokkurra ára í ljósi þess hversu dönskuskotið mál manna var orðið. Við þekkjum og eigum sögu af því að snúa vörn í sókn í þessum málum.

Það kallar líka á aðgerðir. Mig langar að nefna hér, því að við eigum nú málstefnu og lög um stöðu íslenskrar tungu, að besta vopnið til þess að snúa vörn í sókn í þessum efnum er að við hættum ekki að ræða þessi mál. Ég hef stundum sagt að mér finnist það í raun og veru kraftaverk hvernig við Íslendingar höfum getað átt okkar eigin tungu allan þennan tíma. Það er ekkert óalgengt þegar Íslendingar fara til útlanda, út í hinn stóra heim, að fá þá spurningu hvaða tungumál þeir tala. Jafnvel fáum við furðuviðbrögð við því að við, þessar 320 þús. hræður, séum að burðast með og tala hér tungumál með fallbeygingum, sagnbeygingum og ýmsum öðrum málfræðifyrirbrigðum sem jafnvel hafa einfaldast mjög í nágrannamálum okkar. Við búum að máli sem er mjög ríkt og spennandi málfræðilega og höfum stundað þá íþrótt af kappi í gegnum árin að smíða nýyrði um mörg þau nýju fyrirbæri sem við fáum stöðugt í fangið í samtímanum. Það er gríðarlegur fjársjóður og hann hefur hangið á því, að ég tel, að Íslendingar hafa, a.m.k. hingað til, litið á íslenska tungu sem hluta af sinni sjálfsmynd. Það hefur verið hluti af því að vera Íslendingur og búa í þessu samfélagi að mikilvægt er að geta talað og hugsað á íslensku. Eins og sagan sýnir og dæmin sanna um öll þau tungumál sem hafa dáið út í heiminum er þetta svo sannarlega ekki sjálfgefið.

Nú eigum við, eins og ég sagði áðan, málstefnu og við eigum lög en það skiptir líka máli að við séum alltaf á verði. Ég gerði það að umtalsefni hér á dögunum í þessum ágæta ræðustól að það væri eðlilegt að Alþingi tæki árlega til umfjöllunar málstefnuna og hvernig okkur gengi að uppfylla þau markmið sem þar eru sett. Þau eru vissulega falleg og góð í sjálfu sér en það skiptir máli að þeim sé fylgt eftir. Ég ítreka þá tillögu hér því að ég veit að hún hefur verið rædd í hv. forsætisnefnd og vonast til þess að þegar ný starfsáætlun verður sett í haust verði gert ráð fyrir umræðum um málstefnu í tengslum við dag íslenskrar tungu og þar verði til að mynda hæstv. menntamálaráðherra falið að fara yfir hvað hafi áunnist og hver séu næstu verkefni í að framfylgja málstefnunni.

Þá tel ég að við stæðum undir nafni þannig að þegar við samþykkjum þingsályktunartillögur sé þeim fylgt markvisst eftir. Þetta er mál sem hefur verið mér hugleikið lengi en á þó rætur að rekja til hv. þm. Marðar Árnasonar sem hélt þessari tillögu á lofti á síðasta kjörtímabili. Ég held að það sé löngu orðið tímabært að við nýtum tíma okkar í þetta.

Því er stundum haldið fram að við höfum ekki nægan tíma til að taka svona mál á dagskrá sem eru kannski ekki akút í hinu daglega argaþrasi sem við eigum í hér, en ég tel ekkert geta verið brýnna eða a.m.k. fátt en að við hv. þingmenn séum vel vakandi yfir þróun íslenskrar tungu og hvernig við sem löggjafi og eftirlitsaðili stöndum að því að fylgja eftir samþykktum þingsins.

Þessi tillaga er tvímælalaust liður í því að fylgja eftir samþykktum þingsins þannig að ég fagna henni. Ég fagna samstöðunni í hv. allsherjar- og menntamálanefnd um tillöguna og vona svo sannarlega að hún verði afgreidd á þessu þingi. Síðast en ekki síst legg ég á og mæli fyrir um, eins og sagt var í ágætri þjóðsögu, að hún verði gerð að alvöru með því að vera tekin til umfjöllunar við fjárlagagerðina, við munum þar sjá fyrstu merki þess að málinu verði fylgt eftir af krafti og þar verði lagðar línurnar til næstu ára með fjárframlögum í þetta mikilvæga verkefni sem er gríðarlega mikilvægt ef við ætlum að tala hér íslensku eftir 50 ár.