143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni.

268. mál
[12:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur ómældan villukvóta hjá mér og henni er að fullu fyrirgefið. Sjálfur hef ég oft hlýtt með mikilli ánægju á mál hv. þingmanns og lært af því góða meðferð íslenskrar tungu.

Það mál sem ég færði hér inn er, eins og ég sagði, kannski ekki beinlínis skylt þessu umræðuefni en snýst þó um sama öxul. Við viljum vernda íslenska tungu — og hvar er best að plægja svörðinn? Meðal ungra Íslendinga. Það er mjög mikilvægt að þeim sé innrættur góður málskilningur. Eitt af því sem er alltaf erfitt í litlu tungumáli er að taka upp íðorð, að íslenska íðorð. Sú grein vísinda sem ég tilheyrði á fyrri öldum, náttúruvísindi, hefur sýnt sérstaka elju við að íslenska flókin hugtök. Fremstu skáld þjóðarinnar hafa vissulega verið náttúrufræðingar og rutt brautina í þeim efnum.

Svona er samt komið að það er verið að kenna grundvallarnámskeið, sem yngstu nemendum í háskólum eru kennd, á enskri tungu. Auðvitað er það ekki alsiða en sem partur af hjónabandi sem hefur sinn betri legg í uppeldi ungra Íslendinga í Háskóla Íslands veit ég að það færist í vöxt. Mér var undrunarefni að komast að þessu. Þegar ég spurði út í þetta komst ég að raun um að þetta er miklu tíðara en ég hafði gert mér grein fyrir.

Þetta er ákveðinn vandi. Skýringin liggur í því sem kom fram í máli hv. þingmanns, að vaxandi fjöldi erlendra námsmanna sækir til Íslands, sérstaklega í greinum sem eru sértengdar Íslandi, t.d. út af náttúru, og þá verður nokkuð umhendis að gæta málsins. Menn þurfa að taka tillit til svona hluta. Mér fannst rétt að nota tækifærið (Forseti hringir.) og spyrja fyrrverandi menntamálaráðherra sem ég hef fullt traust á í þessum efnum út í afstöðu hennar til málsins.