143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni.

268. mál
[12:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að bæta miklu við þá umræðu sem hefur þegar átt sér stað um þessa tillögu. Mig langaði aðeins að koma hingað sem einn af flytjendum tillögunnar, ásamt þeim sem sitja í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, vekja athygli á því hvernig málið er komið inn í þingið og þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir framtak hennar í að vekja athygli nefndarinnar á skýrslu sem lögð var fram um stöðu íslenskrar tungu á stafrænni öld. Þar var um að ræða viðamikið Evrópuverkefni þar sem fram kom að aðgerða væri þörf til að vernda stöðu íslenskrar tungu í þessari nýju tækni.

Það er engum blöðum um það að fletta að í stað þess að flytja þessa tillögu sem einstakur þingmaður valdi hv. þingmaður að leita til nefndarinnar þar sem málið fékk vandaða og ítarlega umfjöllun. Svo var tillagan lögð fram og fór í eðlilegt ferli í framhaldinu og er nú komin til 2. umr.

Ég tel ástæðu til að vekja athygli á þessu vegna þess að þessi vinnubrögð eru til fyrirmyndar og mætti oftar vinna með þeim hætti að þingið taki sjálft frumkvæði í málum þar sem verulegir hagsmunir eru í húfi.

Efnislega tel ég ekki ástæðu til að eyða tíma í að bæta miklu við það sem hv. talsmaður Svandís Svavarsdóttir flutti áðan og líka fyrrverandi menntamálaráðherra, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, sem gerði ágætlega grein fyrir því hversu mikilvægt væri að slík aðgerðaáætlun yrði gerð um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni og brugðist við til varnar íslenskunni í þessu umhverfi. Mikilvægt er að fjármagn fylgi þannig að það verði hægt að standa myndarlega að þessu og tryggja að við höfum einhverja viðspyrnu þannig að enskan taki ekki algjörlega við í því stafræna umhverfi sem við búum við í dag.