143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

heilbrigðisstarfsmenn.

378. mál
[13:36]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti vegna breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Það eru þríþættar breytingar sem felast í þessu frumvarpi. Sú veigamesta varðar mögulega lengingu á starfsleyfi sérgreinalækna sem starfa á eigin stofum en með þeim breytingum sem voru gerðar á lögum um heilbrigðisstarfsmenn á síðasta kjörtímabili var þetta aldurstakmark lækkað mikið. Við erum að breyta því þannig núna að læknar sem veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eða heilbrigðisstarfsmenn yfir höfuð — þessi lög ná náttúrlega til allra heilbrigðisstarfsmanna þó að vandinn hafi fyrst orðið áberandi meðal lækna — hafa heimild til þess til 75 ára aldurs en frá þeim tíma mun, samkvæmt þessu frumvarpi, landlæknir fá heimild ef viðkomandi óskar þess til að veita undanþágu frá þessu ákvæði að uppfylltum ákvæðum reglugerðar sem á að setja og þá er hægt að veita heimild til þriggja ára. Síðan þegar viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður er orðinn 78 ára getur hann óskað eftir áframhaldandi heimild og getur fengið hana til eins árs í senn eftir þann aldur.

Ég held að það sé almenn samstaða um þetta. Auðvitað hefur komið ósk frá þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem þarna eiga í hlut en það eru ekki síður ákveðin nytsemisrök í þessu því að margir læknar eru að fara á eftirlaun en færri nýir læknar eru að koma inn en við hefðum viljað.

Það skiptir miklu máli að nýta sem best þá sérfræðiþekkingu sem við eigum meðal heilbrigðisstarfsmanna. Það voru engar athugasemdir við það að breyta þessu ákvæði laganna.

Annað varðar gjaldtökuheimildir ef um er að ræða menntun erlendis frá sem ekki hefur verið viðurkennd hér á landi. Það á við þegar heilbrigðisstarfsmenn fá viðurkenningu á því að tilheyra ákveðinni starfsstétt þegar þeir koma með próf erlendis frá. Ef ekki hefur verið veitt sambærilegt leyfi áður er veitt gjaldtökuheimild til landlæknis til þess að vinna þá vinnu sem nauðsynleg er, þýðingar, yfirferð, mat á gögnum og aðra umsýslu.

Að lokum er það nafnabreyting á áfengis- og vímuefnaráðgjöfum. Það er í samræmi við óskir stéttarinnar. Mun nafnið breytast þannig að þeir munu heita áfengis- og vímuefnaráðgjafar í stað áfengis- og vímuvarnaráðgjafa. Þetta er í samræmi við ósk stéttarinnar.

Við breytum gildistökuákvæðinu. Nú er ákvæðið um heimild til áframhaldandi starfsleyfis eftir 75 ára aldur háð því að viðkomandi uppfylli skilyrði samkvæmt reglugerð. Reglugerðin er ekki til, eðli málsins samkvæmt, þar sem frumvarpið hefur ekki verið samþykkt og þar sem verið er að breyta þessu. Við töldum eðlilegt að lögin öðluðust gildi 1. júlí. Við teljum það nægan tíma til að ljúka vinnu við reglugerðina og viljum ekki lengja það frekar því að við teljum mikilvægt að þessi reglugerð verði sett sem fyrst.

Þetta er tiltölulega einfalt mál en það felur í sér mikilvægar breytingar varðandi möguleika heilbrigðisstarfsmanna utan opinberra stofnana til þess að halda starfsleyfi.