143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2014.

564. mál
[13:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er reyndar mjög sjaldgæft að ég sé ekki sammála hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni. Það segi ég ekki bara vegna þess að augljóslega hefur hjarta hans frá upphafi verið lostið meira réttlæti en margra annarra. Skoðanir okkar fara að mörgu leyti saman, sérstaklega í hinum stórpólitísku utanríkismálum sem stundum eru hér uppi, eins og Evrópusambandinu og sambandinu við Færeyinga. Ég sé að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason glottir undir þessu, þetta er þó ekkert gamanmál. Ég legg þetta tvennt að jöfnu, annars vegar að rækta túnið heima við og festa og bæta tengslin við okkar næstu granna, og síðan að horfa vítt yfir höf og efla tengsl líka við þá sem eru handan þeirra.

Af því að hv. þingmaður er nú vanur því að vera ekkert að skera eða fela skoðanir sínar, þá vil ég segja eftirfarandi algjörlega skýrt eins og ég sagði þegar málið kom upp. Það sló mig þannig að verið væri að tyfta Færeyinga og sýna þeim gula spjaldið, ef ekki hugsanlega það rauða, sökum þess að þeir hefðu ekki dansað í takti við Íslendinga í makrílmálinu. Á því hef ég ákveðnar skoðanir sem ég ætla ekki að rekja hér. Ég hef áður látið glitta í nýjan skilning minn á því máli eftir að Íslendingar með vissum hætti sömdu sátt við Evrópusambandið í makríldeilunni með útgáfu síns kvóta, sem er alveg eins og sniðinn eftir Evrópusambandinu. En það er nú önnur saga.

Ég fagna því að hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason segir að ekki fari flís á milli okkar í afstöðunni til Færeyinga. Ég tek auðvitað gild þau rök sem voru færð, fiskifræðileg, fyrir þessum lyktum málsins að sinni. En ég tel að mjög sterk rök þurfi til að breyta þeirri hefð sem hefur verið á veiðum Færeyinga. Því var lýst yfir af hálfu stjórnvaldsins að engin slík ákvörðun hafi verið tekin og hún verður ekki tekin nema við í nefndinni komum að henni líka.