143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

staðfesting samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2014.

566. mál
[13:56]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2014.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Birgi Hrafn Búason frá utanríkisráðuneyti og Jóhann Guðmundsson og Kristján Frey Helgason frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Nefndarálitið er ekki mjög stórt í sniðum en með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til þess að staðfesta þrjá samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2014 sem gerðir voru í Reykjavík 28. mars 2014, en voru reyndar líka til umræðu á fundum strandríkjanna í London 4.–6. febrúar 2014. Um er að ræða sameiginlega bókun um niðurstöður fiskveiðiviðræðna um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2014; samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Noregs norðan 62°N, fiskveiðilögsögu Jan Mayen og efnahagslögsögu Íslands á árinu 2014; og samkomulag milli Íslands og Rússneska sambandsríkisins um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands á árinu 2014.

Í athugasemdum við tillöguna kemur fram að í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) og fyrri ákvörðun aðila um nýtingarstefnu til lengri tíma var heildaraflamark ákveðið 418.487 lestir á árinu 2014. Er það veruleg lækkun frá undanförnum árum en aflamarkið árið 2013 var 619.000 lestir og 833.000 lestir árið 2012. Veiðiheimildir aðila á árinu 2014 skiptast í sömu hlutföllum og verið hefur frá árinu 2007 og koma 60.722 lestir í hlut Íslands. Noregur er með 255.000 lestir, Rússneska sambandsríkið tæplega 54.000 lestir og Evrópusambandið rúmlega 27.000 lestir.

Utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt.

Með frumvarpinu eru tvö fylgiskjöl, þ.e. sameiginleg bókun strandríkjanna ásamt viðaukum, og síðan samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Noregs norðan 62°N.

Undir nefndarálitið rita sá sem hér stendur og Birgir Ármannsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Össur Skarphéðinsson.

Eftirtaldir þingmenn voru fjarverandi þegar tillagan var samþykkt, það eru Árni Þór Sigurðsson, Frosti Sigurjónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Óttarr Proppé.