143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

staðfesting samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2014.

566. mál
[13:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er að sönnu algjörlega rétt að þessi niðurstaða á samningum úr norsk-íslenska síldarstofninum er í samræmi við það hvernig aðilar máls hafa áður skipt stofninum sín á milli, og sömuleiðis er það í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Það breytir ekki hinu, herra forseti, að rifja verður upp að hlutur Íslands er samt ærið snautlegur. Á sínum tíma þegar þessi samningur var gerður benti ég og reyndar fleiri ítrekað á það að hlutdeild Íslands var allt of lítil. Við höfum, finnst mér, allt of lengi látið lemja okkur með staðhæfingum um að það hafi verið Íslendingar sem ofveiddu síldina og það hafi verið íslensk rányrkja sem leiddi til hrunsins 1967 og árunum þar um kring. Það hafa margsinnis síðan með fiskifræðilegum rannsóknum verið leidd sterk og óyggjandi rök að því að svo var ekki. Ofveiðin var öll vegna rányrkju Norðmanna á ungsíld. Verið var að taka í gríðarlegu magni síld sem aldrei hefði verið leyft að veiða við Íslandsstrendur og það var gert af norskum fiskimönnum, norskri útgerð. Þess vegna var ég í upphafi alltaf á móti þeim samningi og fannst við Íslendingar bera mjög skarðan hlut frá borði. Ég veit ekki hvort hv. þm. Ásmundur Einar Daðason geti verið mér sammála um það. Sá samningur var gerður af hinni fornu sveit forustu Framsóknarflokksins með Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, í broddi fylkingar. Ég tek eftir að hv. þingmaður og framsögumaður málsins eru ásamt sínum flokki nú í óða önn að endurskoða söguna og hyggjast taka þá ágætu menn aftur í guðatölu miðað við það að þeir eru nú helsta haldreipi Framsóknarflokksins þegar vantar fólk í framboð og sýnast í óða önn vera að bjarga hlut flokksins í hverju sveitarfélaginu á fætur öðru þó miður hafi tekist í Reykjavík heldur en ég og hv. framsögumaður málsins vildu raunar.

Þetta vildi ég segja til að undirstrika það fyrir hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni að vissulega er þetta í samræmi við síðustu ár, ákvarðanir og niðurstöðu úr rannsóknum Alþjóðahafrannsóknaráðsins, en þessum kortum var rangt deilt út í upphafi.