143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[14:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum stefnumótandi byggðaáætlun. Eins og kom fram hjá framsögumanni er ég á nefndarálitinu með fyrirvara. Hann er almennur og miðast fyrst og fremst við það að mér hafi ekki þótt fara saman orð og efndir í þessum málaflokki til langs tíma. Ég get ekki hrósað þeim ríkisstjórnum sem hafa verið hér við völd í gegnum áratugina í þeim efnum. Það má vel vera að menn hafi farið þar fram með vilja, en verkin hafa því miður ekki sýnt hann. Það hefur ekki skilað sér í fjárlögum sem eru sterkasti mælikvarðinn á það hvort menn meini eitthvað með því sem lagt er fram í stefnumótandi byggðaáætlun hverju sinni til fjögurra ára.

Hér hafa verið gerðar nokkrar breytingar á breytingaskjali sem hér fylgdi til að undirstrika áherslur nefndarinnar til viðbótar við það sem kom fram í þessari þingsályktunartillögu. Ég tel mig vissulega hafa fengið þar fram nokkur áhersluatriði sem mér þótti vanta inn í þetta plagg og er það vel.

Ég tek líka heils hugar undir það sem kemur fram í nefndarálitinu, að ráðherra þurfi að gera grein fyrir því hvað hafi áunnist að ári liðnu. Ég tel mjög mikilvægt að við fáum inn á þing eigi síðar en fyrir lok árs 2015 munnlega skýrslu um framgang byggðaáætlunar. Ég tel þetta af hinu góða.

Eins og ég talaði um áðan hafa því miður ekki alltaf farið saman orð og efndir. Við erum minnug þess frá síðustu fjárlögum að þar fékk landsbyggðin ansi kaldar kveðjur í mörgum málaflokkum sem hafa brunnið á henni í gegnum árin. Varð mikill niðurskurður í mörgum málaflokkum, eins og sóknaráætlun landshluta, jöfnun húshitunarkostnaðar, jöfnun námskostnaðar og stuðningi við innanlandsflugið. Það var lækkað. Fjárframlög til vegaframkvæmda voru lækkuð og háskóla- og framhaldsskólaframlög stórlega skert. Menningarsamningarnir voru skornir niður og fleira mætti eflaust nefna.

Því tel ég það spurningu um forgangsröðun og hvar borið sé niður þegar menn ætla að ná fram fjárlögum á lokametrunum, hvort það sé landsbyggðin þar sem hún er veikust fyrir eða hvort menn telji hægt að nálgast einhverja aðra kjötkatla þar sem meira kjöt er á beinunum en úti á landi. Ég nefni í því tilliti hin margumræddu veiðigjöld á stórútgerðina sem skilar miklum hagnaði ár eftir ár.

Í nefndarálitinu sem liggur hér fyrir er rætt um verkefnið Brothættar byggðir, að það hafi gengið vel og sé sérstaklega hagstætt fyrir þau byggðarlög sem hafa lent í erfiðleikum. Það er ástæða til að ítreka og minna á að því miður eru enn fleiri byggðarlög að lenda í vanda en þau sem fengu aðstoð á síðasta ári með 1.800 tonna byggðakvóta Byggðastofnunar. Ég tel að það verði að vera til staðar öflugur öryggispottur um aflaheimildir sem hægt er að grípa til. Við vitum að það er búið að ráðstafa þessum 1.800 tonnum til illa staddra byggðarlaga í dag með samningum til langs tíma en núna verður þingið að koma inn í þessi mál og taka af aflaheimildum sem menn reikna með að verði auknar í ár og festa þá enn frekar í sessi þá ríflegu hluta af aflamarki hvers fiskveiðiárs til þessara hluta. Enginn veit hvenær næsta sjávarpláss lendir í hremmingum. Eins og kvótakerfið er uppbyggt felur það í sér að svona hlutir geti gerst, ekki bara hjá þessum minnstu sjávarútvegsbyggðum heldur einnig þeim sem einhverjir hefðu flokkað undir stærri og sterkari, eins og Vestmannaeyjar. Þar hafa menn líka verið í varnarbaráttu fyrir því að halda aflaheimildum áfram í sínu byggðarlagi. Ég tel að þarna verði menn að vita að hverju þeir ganga og hafa einhverja fótfestu og tryggingar í þessum málum.

Ég kem næst að sóknaráætlunum landshluta. Í nefndinni birtist mikil ánægja með hvernig til hefur tekist með það verkefni og var það þvert á flokka. Var mikil óánægja með það hve mikið var skorið niður í sóknaráætlun við síðustu fjárlög. Það er undirstrikað í nefndarálitinu að útvistun verkefna til landshlutasamtakanna hafi heppnast mjög vel og að þau hafi þá forræði á því að forgangsraða gagnvart nærsamfélaginu. Ég tel að ríkisvaldið verði að hlusta á þessi skilaboð, taka mark á þeim í fjárlögum fyrir næsta ár og gefa vel í vegna þess að þetta hefur virkilega skilað miklum árangri.

Síðan eru fjarskiptamálin. Þar erum við að tala um uppbyggingu gagnanets. Tilgreint markmið að uppbyggingu fjarskiptakerfis er að það verði í samræmi við fjarskiptaáætlun 2011–2022. Sú sem hér stendur hefur ásamt fleirum flutt tillögu um að greina þörfina í landinu til að ljúka háhraðanettengingum og að því verkefni verði lokið innan fjögurra ára. Það þingmál hefur ekki fengist afgreitt hér enn og hef ég fengið þau skilaboð að vinna við sambærilega hluti sé unnin í innanríkisráðuneytinu. Vona ég að það gangi eftir, en þetta er hluti af undirstöðu þess að hinar dreifðu byggðir séu samkeppnisfærar í hinum ýmsu tækifærum sem snúa að atvinnu og menntun og að tengjast þeim nútíma sem fólk gerir í gegnum háhraðanettengingar, fer yfir landamæri og þvert yfir heiminn allan. Þetta er hluti af því stóra byggðamáli sem hefur komið upp í umræðunni. Þegar þingmenn landsbyggðarinnar hafa farið um kjördæmi sín er kallað á að þessu verkefni verði lokið, fólk fái að sitja við sama borð og að þetta tryggi það að ungt fólk í byggðum þar sem enn eru ekki nægilega góðar háhraðanettengingar sjái tækifærin heima fyrir og hafi áhuga á að snúa aftur heim að námi loknu.

Um atvinnumálin er líka kafli og þar eru undirstrikuð ákveðin stórverkefni. Þar er komið inn verkefni eins og að skoða hvað hægt er að gera varðandi eflingu vinnslu í kalkþörunganámi og til að auka sjókvíaeldi. Ég er mjög ánægð með að það var sett hér inn. Fyrir var einungis áhersla á uppbyggingu innviða á iðnaðarsvæðum eins og Bakka og Húsavík og uppbyggingu á iðnaðarstarfsemi á Helguvíkursvæðinu. Þau verkefni eru allra góðra gjalda verð, en fleiri stórverkefni eiga alveg heima í stefnumótandi byggðaáætlun þó að vissulega sé ekki hægt að fara í einhvern sparðatíning þar og tína upp öll verkefni sem hugsanlega gætu átt þar heima og eru í pípunum úti um land. Ég tel að sjókvíaeldi og aukin kalkþörungavinnsla og -nám hljóti að flokkast undir nýsköpun. Kalkþörungavinnslan hefur verið að þróast og hefur sýnt fram á að hún vaxi og dafni. Menn vilja halda áfram að fjárfesta enn frekar í henni og telja hana eiga vel heima hér og líka sjókvíaeldið. Það er mjög brýn þörf á að búa þá umgjörð um það að fyrir liggi nýtingaráætlun fyrir strandlengju Íslands og þau svæði þar sem sjókvíaeldið kemur til greina svo hægt sé að fara að byggja þann atvinnuveg upp hægt og bítandi.

Ég hef nefnt hér varðandi samgöngur að það voru skorin niður framlög til vegagerðar í síðustu fjárlögum og almenningssamgöngurnar hafa átt undir högg að sækja að vissu leyti. Það þarf að sýna fram á að þær fái áframhaldandi stuðning. Eftir því sem maður heyrir í fleiri sveitarstjórnarmönnum og fólki vítt og breitt um landið held ég að enginn vafi sé á því að stjórnvöld eiga að standa við bakið á öflugum almenningssamgöngum og efla þær enn frekar til að stækka og efla byggðakjarnana, tengja atvinnusvæði og auka möguleika fólks á að sækja nám úr sinni heimabyggð innan landsvæðis. Ég tel það mjög mikilvægt og lagði mikla áherslu á að þessu væru gerð góð skil í nefndarálitinu.

Þá vil ég líka ræða um innanlandsflugið því að það er ekki síður mikilvægt. Þá vísa ég enn til síðustu fjárlaga þar sem síðustu styrkir til ríkisstyrktra leiða í innanlandsflugi voru lækkaðir. Ég tel mjög brýnt að tímanlega liggi fyrir samningar við þá aðila sem þjóna þessum ríkisstyrktu leiðum svo þessi mál séu ekki í uppnámi og óvissu. Þetta eru almenningssamgöngur margra svæða í landinu vegna fjarlægðar frá stærstu stjórnsýslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Við þekkjum öll umræðu um mikilvægi þess að jafna orkukostnað í landinu. Menn hafa glímt við það verkefni lengi og togast á um það. Ég tel að það hafi verið vilji þvert á flokka til að reyna að jafna orkukostnað. Hægt hefur gengið en eitthvað þokast. Núna liggur fyrir þinginu frumvarp sem var flutt af hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um jöfnun orkukostnaðar. Það á eingöngu við innan dreifiveitna og í þeirri breytu eru því ekki stórfyrirtækin, þau sem kaupa orku beint frá Landsvirkjun. Þau koma ekki að því og tel ég slæmt að þau hafi ekki verið tekin inn í þessar jöfnunaraðgerðir. Ég kalla líka eftir upplýsingum um hvar þetta mál er statt. Ætla menn ekki að afgreiða það núna? Telja menn það ekki neitt forgangsmál hjá stjórnarmeirihlutanum? Hvar er það mál statt? Það hefur verið mikill vilji og hvatning víðs vegar að af landinu til að taka á því. Mér finnst það vera okkur hér öllum til skammar ef ekkert á að gera í því áður en þessu þingi lýkur.

Það er með ólíkindum hversu mikill munur er á húshitunarkostnaði eftir svæðum, jafnvel bara milli þéttbýlisstaða á landsbyggðinni. Sums staðar eru sem betur fer ódýrar hitaveitur sem fólk býr við, en þar sem menn búa við rafkyndingu og dýrar hitaveitur er þetta mjög þungur baggi og verður að vera hægt að jafna þennan kostnað sem ekkert heimili kemst hjá að greiða. Það er óásættanlegt hve mikill munur er orðinn þar á. Þetta er í sjálfu sér ekkert stór hópur, en það þarf að mæta honum fyrir því.

Ég tel að skógræktarverkefni hjá landshlutasamtökum hafi gengið vel að mörgu leyti. Það er áhugavert verkefni, en það eru vissar efasemdir um að skógrækt verði einhvern tímann þannig alvöruatvinnugrein að við lítum á hana sem framtíðarþátt í atvinnumálum á landsbyggðinni. Ég tel hægt að horfa á skógrækt sem hliðarbúgrein að mörgu leyti og svo er þetta líka skógrækt til yndisauka, eins og margir hafa nefnt, og allt gott um það að segja. Ég veit ekki hvort það er skynsamlegt fyrir okkur á hjara veraldar, á norðlægum slóðum, að leggja mikið undir í því að hafa skógrækt til hliðar við aðra atvinnuvegi þjóðarinnar, að við getum með einhverjum hætti keppt við þær þjóðir sem hafa alla burði til að hafa skógrækt sem alvöruatvinnuveg.

Svo er ég líka í hópi þeirra sem telja að við þurfum að horfa til þess að vernda líka upprunalegan gróður í landinu. Á sumum svæðum er búið að ganga ansi langt í að eyðileggja falleg svæði, þar sem fallegur lággróður er, og ég held að við verðum að gæta að okkur í þeim efnum.

Landsbyggðin stendur í húsnæðismálum frammi fyrir annars konar vanda en höfuðborgarsvæðið. Þar er víða húsnæði á lausu sem ekki er hægt að fá leigt vegna þess að fjármálastofnanir eiga það. Byggingarkostnaður er það hár að það fer lítið fyrir byggingu húsnæðis úti á landi. Þótt fólk vilji setjast að úti á landi er erfitt að fá þar (Forseti hringir.) leiguhúsnæði og allt of dýrt er að byggja þar svo einhvern veginn verður að bregðast við varðandi búsetu (Forseti hringir.) fólks úti á landi.