143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[14:47]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017 og nefndarálit og breytingartillaga frá atvinnuveganefnd. Menn hafa kannski ekki alltaf tekið þessar ályktanir mjög alvarlega og ber að fagna því að menn ætli nú að krefjast þess að lagðar verði fram munnlegar skýrslur í þinginu um framgang málsins þannig að þeim verði betur fylgt eftir. Undirtónninn verður náttúrlega alltaf að vera sá að það sé ákveðinn skilningur og vilji til að jafna stöðu byggðanna í landinu og reyna að sporna gegn neikvæðri byggðaþróun. Með neikvæðri byggðaþróun á ég við að flutningurinn á höfuðborgarsvæðið sé of mikill á hverjum tíma. Þar er ekki verið að tala um einhver rómantísk viðmið, heldur fyrst og fremst það að það er hagkvæmnisatriði að við séum ekki að þjappa byggð allri á einn stað, plús það að við eigum eignir út um allt land og verðmæti, aðgang að auðlindum o.s.frv., sem skiptir máli að nýta og með því að flytja alla byggðina á höfuðborgarsvæðið kostum við verulega til.

Ég segi þetta minnugur þess að þegar ég sem sveitarstjórnarmaður á sínum tíma var boðinn á fund Byggðastofnunar til að kynna mér áhrif íbúaþróunar á þeim tíma, fyrir margt löngu, álit sem við fengum 1986, voru menn búnir að reikna það út að sú byggðaþróun sem þá var í gangi, ef hún héldi áfram, mundi það kosta á verðlagi þess árs, fyrir þetta löngum tíma, um 20 milljarða og það væri til þess vinnandi að sporna gegn þeirri þróun þó ekki væri nema af fjárhagslegum ástæðum. Bak við þetta lágu meðal annars tapaðar eignir sem nýttust illa ef menn flyttu af svæðunum og öfugt, að menn þyrftu að efla samgöngukerfi höfuðborgarinnar og bæta við byggð til að mæta þessari íbúaþróun.

Ég ætlaði nú bara rétt að lýsa yfir ánægju með það sem kemur fram í nefndarálitinu. Það er í fyrsta lagi stuðningur við einstaklinga þar sem hér er talað um að skoða hvort taka eigi upp sérstakar svæðisbundnar ívilnanir, bæði hvað varðar námslán og barnabætur. Eins sé ég að rætt hefur verið hvort taka eigi upp greiðslur vegna aksturs til og frá vinnu sem mér finnst að menn eigi að halda áfram að skoða þó að það sé ekki tilgreint sem eitt af því sem eigi að fara inn í sérstaka úttekt.

Í öðru lagi er hér kafli í nefndarálitinu um sóknaráætlun landshluta. Þetta er fyrir mér dæmi um eitt af þeim atriðum þar sem takmarkaður skilningur eða þekking virtist hafa verið á því hvað hefði verið gert á síðasta kjörtímabili hvað varðar þetta atriði, því að verulega var dregið úr fjármagni til sóknaráætlana, plús það að verkefni sem hafði verið ýtt frá Alþingi og frá ráðuneytum út til landshlutasamtaka, út til svæðanna, eins og menningarsamningarnir, hafði verið að þróast á lengri tíma og hafði þróast mjög jákvætt, þarna hafa menn sett þessi mál algjörlega í uppnám með vanhugsuðum breytingum, og sér ekki alveg fyrir endann á þeim hvað varðar menningarsamninginn.

Það er ánægjulegt að sjá hér aftur á móti að það er skýr viljayfirlýsing um að sóknaráætlunum verði haldið áfram, en það kemur einmitt fram í nefndarálitinu að með þeim hefði verið innleitt nýtt verklag þvert á ráðuneyti, auk þess sem landshlutasamtök sveitarfélaga hefðu samkvæmt þeim fengið ákveðið hlutverk og vald hefði verið fært heim í héruð frá ráðuneytum og frá miðlægri stjórnun hér á höfuðborgarsvæðinu.

Einnig kemur fram í nefndaráliti að eftir lestur umsagna um málið og eftir að hafa hlýtt á gesti telji nefndin ljóst að vonbrigði séu með það að framlög til þessa verkefnis hafi verið lækkuð í fjárlögum 2014 og leggur nefndin því til að við undirbúning fjárlaga næsta árs verði auknum fjármunum varið til sóknaráætlunar. Ég tek heils hugar undir þetta álit nefndarinnar sem er samhljóða fyrir alla flokka, þeirra sem áttu fulltrúa í nefndinni, þannig að ég held að þetta sé mjög mikilvægt.

Síðan er kafli um fjarskiptamálin. Þar varð eiginlega úr ágætum hugsunum upphaflega varðandi það að stuðla að öflugum fjarskiptum um allt land og tölvutengingum — þá mistókst það að því leyti að menn voru að skilgreina markaðssvæði þar sem átti að ríkja samkeppni og svæði þar sem ekki væri eðlileg samkeppni og ekki markaðsforsendur til að byggja upp kerfið, þar átti Fjarskiptasjóður að styrkja uppbyggingu. Raunin varð sú að Fjarskiptasjóður sinnti því hlutverki nokkuð vel, en mörg svæði sem voru skilgreind sem markaðssvæði upphaflega hafa svo lent í klemmu. Ég tel gríðarlega mikilvægt að fylgja því eftir að við náum að bjóða upp á öfluga þjónustu um allt land, því að þetta er orðið eitt mikilvægasta búsetuskilyrði á Íslandi, það er að hafa aðgang að öflugum fjarskiptum, tölvutengingum og öðru slíku. Þar vitum við um að á ákveðnum svæðum er þetta ekki nægjanlega öruggt, þar af leiðandi veigra fyrirtæki sér við því að fara inn á þau svæði af því að menn þola ekki að þar séu bæði hægar nettengingar eða að sambandið geti dottið út tímunum saman. Ég held að það sé mjög mikilvægt að í byggðaáætlun sé því fylgt eftir að þessum málum verði komið í lag.

Varðandi atvinnumálin hafa menn verið að fara yfir það hvar eigi að vera styrkir til ákveðinna byggðaverkefna. Almennt hef ég stutt þær hugmyndir að sem almennastar reglur gildi um þetta. Í tengslum við þetta langar mig að nefna tvennt. Í fyrsta lagi kemur hér til umræðu næst fækkun sýslumannsembætta. Ég styð þá breytingu. Þar er samtímis ákveðið að halda starfsstöðvum þar sem sýslumenn hafa verið og hafa þar löglærða menn, en um leið er gefin alveg klár yfirlýsing um að færa eigi verkefni til þessara starfsstöðva og viðhalda þannig þjónustunni heima í héraði. Það á að gera tímasetta áætlun sem öll ráðuneyti taka þátt í, það er í því frumvarpi. Þetta finnst mér skipta miklu máli sem atvinnumál í tengslum við byggðamálin, og hefði mátt vera nefnt hér, að menn fylgdu þessu eftir. Líkt og gert var með skattstjóraembættið þar sem menn héldu útstöðvunum og færðu þangað verkefni, þá verði þess gætt sérstaklega að þar sem sýslumannsembættin voru, þegar þau verða sameinuð, sýslumaður í hverju umdæmi, verði starfsstöðvarnar eftir sem áður nýttar til að færa út verkefni, þjónustuverkefni sem ríkið er að sinna. Mörg af þeim eiga jafn vel heima úti á landi eins og í Reykjavík.

Þessu tengd eru menntunarmál sem skiptir líka gríðarlega miklu máli að séu í lagi. Ég held það sé aldrei réttilega metið hversu mikilvægt er að hafa skóla út um allt land. Ég held að engum dyljist áhrifin af Háskólanum á Akureyri, hversu jákvæð áhrif hann hefur haft á byggðamál á Eyjafjarðarsvæðinu og norðausturhorninu. Hafandi áhyggjur af því — nú þegar verið er að ræða Landbúnaðarháskólann, Bifröst, jafnvel Háskólasetrið á Vestfjörðum, allt gríðarlega mikilvægar stofnanir, sem við verðum að reyna að halda úti á landi, og jafnvel þó að það takist þarf hæstv. mennta- og menningarráðherra að sameina skóla — má það aldrei verða öðruvísi en þannig að menn tryggi að starfsstöðvarnar haldist úti á landi, þá verður það lágmarkskrafan, ef þessar þvingunaraðgerðir ganga fram, að það verði lögfest hvar starfsstöðin á að vera.

Í umræðunni hér á undan var rætt nokkuð ítarlega um verkefnið um brothætt byggðarlög, sem er verkefni sem mér sýnist fara afar vel af stað af hálfu Byggðastofnunar. Ég held það skipti mjög miklu máli að menn vinni áfram eftir þeim hugmyndum, en þarna var ekki komin til, hafði alla vega ekki verið sett inn, tilfærsla á kvóta eða réttara sagt útgerð og fiskvinnslu, sem eitt fyrirtæki getur valdið með því að flytja starfsstöðvar sínar. Það getur valdið því að menn lendi í vandræðum með þrjú byggðarlög á Íslandi, Djúpavog, Húsavík og Þingeyri. Þá er spurningin: Hvernig bregðast menn við?

Þeirri spurningu hefur aldrei verið svarað í kvótakerfinu og ég hef gagnrýnt það ítrekað. Þetta er ein af þeim spurningum sem ég hef alltaf spurt. Árið 2007 þegar ég byrjaði í pólitík — þingframboði — spurði ég einmitt að þessu í Bolungarvík: Hvernig ætlið þið að bregðast við ef útgerðin á staðnum fer? Vestfirðingarnir brugðust þannig við, þegar kvótinn fór frá Flateyri, að þeir keyptu til baka helminginn af honum og rúmlega það, en eftir stóð að þar með var útgerðin á Vestfjörðum orðin skuldsett upp á 1.500–1.600 milljónir. Þar af leiðandi eru menn að borga verulegan kostnað til að geta rekið fyrirtækin í samkeppni á markaði.

Ég hvet til þess að í tengslum við byggðaáætlun verði fundin varanleg lausn fyrir Þingeyri, Húsavík og Djúpavog. Ég held að ein af leiðunum gæti verið sú að færa þangað byggðakvóta til lengri tíma, eða kvóta, Byggðastofnunarkvóta getum við sagt, með svipuðum hætti og gert er ráð fyrir í verkefninu brothætt byggðarlög.

Hér er kafli í nefndarálitinu Samgöngur. Ástæða er til að ítreka það sem kemur fram í nefndarálitinu að hluta, þ.e. áherslan á almenningssamgöngur, að við klúðrum því ekki aftur. Við erum búin að koma upp nýju neti í almenningssamgöngum sem hefur mælst gríðarlega vel fyrir og skiptir mjög miklu máli fyrir mjög mörg byggðarlög; ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil vekja athygli á því að menn verða að verja það kerfi mjög öfluglega.

Í sjálfri tillögunni eru nefnd ákveðin svæði sem horfa á sérstaklega til, það eru Vestfirðirnir og Norðausturlandið. Þegar eru hafnar umfangsmiklar framkvæmdir á Norðausturlandinu. Það er einsýnt að menn verða að forgangsraða þannig að Vestfirðirnir, sem eru ein allsherjar brothætt byggð má kalla, verði inni í myndinni, að gengið verði frá vegasamgöngum á sunnanverðum fjörðunum og Dýrafjarðargöngum í framhaldi.

Annað atriði vil ég nefna sem tengist samgönguáætlun sem er í umfjöllun hjá þinginu og umræðu þar, meðal annars um Sundabraut. Samkvæmt áætlunum á gjaldtaka í Hvalfjarðargöngum að leggjast af árið 2018. Það má ekki gera lítið úr þeirri framkvæmd, hún var gríðarlega mikilvæg árið 1998 þegar göngin voru tekin í notkun, styttu vegalengdina, þ.e. að þurfa ekki að keyra fyrir Hvalfjörð, um allt að 60 kílómetra fyrir þá sem voru á leið upp á Akranes. Menn borguðu gangagjaldið með glöðu geði í byrjun. Síðan þegar menn fara í stórframkvæmdir bæði á Suðurlandsvegi og Reykjanesbrautinni, og jafnvel jafn stórar og kostnaðurinn við göngin var á sínum tíma, og engin gjaldtaka kom á þær leiðir frekar en ný göng annars staðar á landinu, tel ég einsýnt að menn leggi gangagjaldið af og standi við það að Spölur á að skila göngunum til ríkisins árið 2018, að ekki komi ný gjaldtaka á þessa leið í framhaldinu. Það gildir um Sundabrautina líka. Ég tel alveg útilokað að leggja gangagjöld á þá braut eingöngu, enda yrði það mjög ankannalegt ef menn ætla að fara að leggja á gangagjald úr Grafarvoginum inn í miðbæ í tengslum við Sundabrautina.

Menn verða líka að gera sér grein fyrir því að þó að ekki sé um að ræða háar upphæðir, að borga 240 kr. fyrir þá sem nota göngin að fullu hverja leið, þá eru það samt næstum 20% ofan á bensínkostnað. Við vorum hér fyrr í dag að ræða lækkun á álögum um 1% eða 1 kr. á lítrann. Þarna er um að ræða 240 kr. kostnað, sem er eins og einn bensínlítri í hverri ferð sem menn aka á milli Akraness og Reykjavíkur til dæmis.

Ef menn eru að fara á einstaka atburði, á íþróttaviðburði eða á íþróttamót, eða langar að koma á menningarviðburði í Borgarfirði eða á Akranesi, þá borga þeir 1.000 kr. í hverri ferð, ef þeir fara sjaldan. Þetta eru hindranir sem eiga ekki rétt á sér lengur. Ég held því að sem hluti af byggðamálum ætti að tryggja að þetta yrði lagt af.

Svo eru það orkumálin, köldu svæðin og raforkuöryggið sem þarf að tryggja, eins og á Vestfjörðunum. Ég nefni líka þá umræðu, sem maður hefur svo sem ekki alveg áttað sig á, að minnsta kosti í byrjun, hversu mikið tap er í kerfinu og hversu dýrt er að flytja orku landshorna á milli í sambandi við orkunýtingu. Menn þurfa einmitt að hafa í huga að nýta orkuna sem næst upprunanum.

Að lokum langar mig að nefna húsnæðismálin. Þar er allt landið undir hvað varðar þörfina á því að hér sé öflugt leiguíbúðarkerfi, húsnæðiskerfi. Við viljum að tryggt verði að það verði hluti af byggðastefnunni að fólk sem vill búa úti á landi þurfi ekki að fjárfesta í húsnæði strax í byrjun. Ég treysti á að því verði fylgt mjög vel eftir í framhaldinu.

Ég ætlaði ekki að flytja langa ræðu, en það teygist stundum úr þessu. En þær breytingartillögur sem hér eru fluttar af hv. atvinnumálanefnd, ég mæli með því að þær verði samþykktar því að það eru í raun jákvæðar breytingar sem koma ofan í þessar tillögur. Þó að ýmislegt vanti inn í byggðamálin í heild, held ég að það sé mikilvægara að skerpa fókusinn og standa við það sem lagt er fram, leggja áherslu á að því fylgi fjármagn. Ég treysti á að svo verði í framhaldinu.