143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég tek til máls vegna breytingartillögu sem ég vona að hv. allsherjar- og menntamálanefnd sé reiðubúin til að flytja sem er í kjölfar þess að með erindi Persónuverndar er bent á hvernig má skýra ákveðinn þátt frumvarpsins. Ekki er um að ræða mikla breytingu og reyndar ekki breytingu á verklagi lögreglunnar eins og það er núna, heldur er breytingartillagan sú að lögfesta það fyrirkomulag sem lengi hefur verið. Um er að ræða þá tillögu Persónuverndar að eftirfarandi málslið verði bætt aftast við tillögu 7. gr. frumvarpsins — lagt er til að 4. mgr. 28. gr. hljómi svo, með leyfi forseta:

„Um öflun málaskrárupplýsinga, þar á meðal umfang upplýsingaöflunarinnar, fræðslu til umsækjenda og starfsmanna í aðdraganda uppflettingar og andmælarétt þeirra, skal nánar mælt fyrir í reglugerð.“

Sjálfsagt má ræða orðalagið, en hv. allsherjar- og menntamálanefnd getur sjálfsagt komist að fínni niðurstöðu um það. Ég vildi nefna það og óska eftir því að þessi breytingartillaga verði lögð fram. Ég vænti þess fastlega að hægt verði að afgreiða hana í fullri samvinnu við alla.