143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:36]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég tek undir með honum að sporin hræða. Það getur vel verið að eftir einhverja upplýsingafundi hafi þeim sem þangað komu létt. En af því þingmaðurinn nefnir sérstaklega að umsagnir hafi borist áður en þessir fundir voru haldnir, þá hefði það styrkt málið, að mínu viti, ef þeir aðilar sem þar gáfu umsagnir hefðu breytt umsögnum sínum sem eru neikvæðar í garð málsins.

Ég tek alveg undir það, samráð er alltaf af hinu góða. Það er þannig. Ég er ekki að gera lítið úr því að það eigi að viðhafa. Ég er heldur ekki að segja að við hefðum átt að taka einhverja ákvörðun, nákvæmlega við hér eða ráðuneytin, um hvernig þetta ætti að líta út, en samráð getur líka átt sér stað áður en að málinu kemur. Málið hefði til dæmis getað komið fullbúnara hér inn hvað það varðar, samanber lögin um opinber fjármál. Þar hefur átt sér stað gríðarlegt samráð milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytisins og úr því verður frumvarp. Það er það sem ég er að segja.

Mér finnst fjármálaráðuneytið í raun pínulítið vera að gagnrýna að það sé ekki gert og þetta sé svolítið í lausu lofti, kostnaðurinn við þetta, hvernig þetta líti út og allt það. Það er aðallega það sem ég hef áhyggjur af. Ég heyri líka í aðilum sem hafa áhyggjur, þar sem embættin eru mjög lítil, af því að breytingin verði á þann veg að fjölga þurfi sums staðar og þá hljóti það að þýða fækkun annars staðar, þar sem ekki eigi að breyta starfsmannafjölda. Það er það sem fólk er að spyrja um. Það er meðal annars þess vegna sem ég hef verið að spyrja. Við höfum nefnilega verið að tala um hreppaflutninga, að fólk kannski þurfi að færa sig til í starfi sem það ekki óskar.