143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin. Það sem ég spurði um varðandi það að aðskilja framkvæmdina og eftirlitið snýst um það að kerfin hljóta samt sem áður að þurfa að tala saman þannig að hægt sé að framkvæma eftirlitið á grunni einhverra gagna. Mér er sagt að svo sé ekki, að þetta séu tvö ólík kerfi hjá sýslumönnum annars vegar og lögreglunni hins vegar, og það má vel vera að það sé bara hið besta mál að ráðist verði í þá framkvæmd sem til þarf, þ.e. að búa til nýtt kerfi. Þá skulum við vona að fjármunir fáist til þess. Það er kannski það sem mér finnst þetta snúast svolítið um, það er að innleiðingin gangi snurðulaust fyrir sig. Það er ekki nóg að samþykkja: Svona viljum við að þetta líti út ef það kostar kannski miklu meira en fólk gerir ráð fyrir. Ég spyr bara: Hefur þetta verið rætt, svona atriði í praxís? Komu einhverjar slíkar áhyggjur fram?

Ég hefði líka viljað ræða það betur að gerðar hafa verið töluverðar breytingar á löggæslunni og lögreglunni áður. Fram kemur í umsögn Landssambandsins að það hafi kannski ekki gengið eftir eins og gert hafði verið ráð fyrir og sambandið kallar eftir því að Ríkisendurskoðun geri úttekt á því sem gert hefur verið fram til þessa. Ég tek undir það, ég hefði viljað sjá það gert áður. Og það hefði verið hægt að gera það í fyrra eða hittiðfyrra, ég er ekki að segja að það hefði átt að gera það núna, af því þetta hefur legið í loftinu, þessi smíð, hún er ekkert ný. Það hefði þurft að liggja fyrir hvernig þetta hefur gengið fram til þessa.