143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:42]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna og hugleiðingarnar um hvað breytingarnar muni hafa í för með sér. Við umfjöllun nefndarinnar kom ítrekað fram að gert er ráð fyrir að sýslumannsembætti og lögregluembætti verði starfrækt hvort á sínum staðnum innan sama umdæmis. Það er lykilatriði. Hins vegar er gert ráð fyrir að starfsstöðvar verði ekki lagðar niður heldur verði áfram á sömu stöðum þó að yfirmaðurinn verði einn, sýslumaðurinn eða lögreglustjórinn, yfir stærra svæði. Þetta þýðir að þjónustan sem snýr að íbúunum á ekki að breytast þannig að íbúar hafa sama aðgang að þessum starfsmönnum og áður.

Varðandi kerfin kom fram að það skipti máli, á milli lögregluembætta, að kerfin vinni vel saman. Það er eitt af því sem hefur verið unnið að síðustu ár og er í vinnslu, þ.e. að kerfin milli lögregluembættanna vinni saman, og eins þurfa kerfin í einhverjum tilfellum að vinna þvert á sýslumanns- og lögregluembætti þar sem menn eru í raun að vinna að sömu málunum hvor á sínum endanum, þ.e. framkvæmdarvald og lögregluvald. Það var rætt fyrir nefndinni.

Til framtíðar litið er sem sagt lykilatriði að núna verða umdæmamörkin og staðsetning embættanna unnin í samstarfi við stjórn viðkomandi embættis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök. Það skiptir líka máli til framtíðar að ekki þurfi að taka upp lög, t.d. þegar sveitarfélagamörk breytast og íbúafjöldi þróast eftir svæðum og breytist. Meðal annars þess vegna er talið eðlilegra (Forseti hringir.) að þetta sé unnið eftir að lögin taka gildi.