143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

140. mál
[15:59]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994, með síðari breytingum.

Líkt og fram kemur í þskj. 746 fékk atvinnuveganefnd á sinn fund ýmsa umsagnaraðila og leggur til í nefndaráliti sínu eftirfarandi breytingar á frumvarpi sem ég mun nú gera grein fyrir.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Annars vegar er um að ræða ákvæði sem snerta heimildir Matvælastofnunar til eftirlits. Nauðsynlegt þykir að leggja slíkar breytingar til þar sem áburðarfyrirtæki hafa gert athugasemdir við tilteknar heimildir stofnunarinnar. Hins vegar eru í frumvarpinu lagðar til ýmsar aðrar breytingar til að auka skýrleika laganna. Málið hefur áður verið flutt á 140. og 141. löggjafarþingi.

Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi:

Lagt er til í 2. gr. að Matvælastofnun verði heimilt að framselja til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga ákveðin verkefni vegna eftirlits og gildir gjaldskrá Matvælastofnunar þegar slík heimild kann að vera nýtt. Við umfjöllun um málið voru gerðar athugasemdir við að heilbrigðisnefndum yrði framselt vald, einkum vegna þess að því fylgir vald til að beita þvingunarráðstöfunum. Nefndin telur hagræði geta verið fólgið í því að framselja slík verkefni og leggur því ekki til breytingu á þessu ákvæði.

Í 3. gr. er kveðið á um skyldu fóðurfyrirtækja til að hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun. Einnig mun þurfa leyfi frá Lyfjastofnun ef framleitt verður lyfjablandað fóður. Athugasemdir komu fram í umsögnunum við það að tvö leyfi þyrfti til fóðurframleiðslu en nefndin gerir ekki tillögu um breytingu á frumvarpinu þess efnis vegna þess að lyfjablandað fóður er í hverfandi mæli framleitt og selt á markaðnum.

Þá eru lagðar til ýmsar breytingar á lögunum sem eiga við um fóður, áburð eða sáðvöru. Í 4. gr. er áréttuð ábyrgð fyrirtækja á því að efnainnihald eða eiginleikar vöru séu í samræmi við skráða vörulýsingu.

Í 6. gr. frumvarpsins er þess krafist að tekin séu umhverfissýni vegna eftirlits með tilkynningarskyldum sjúkdómum en gildandi ákvæði mælir aðeins fyrir um tilkynningarskyldu vegna örvera í sjálfu fóðrinu. Bent var á í umsögnum og á fundum nefndarinnar að óljóst þætti hvað fælist í hugtakinu „umhverfissýni“ og að þeim sem sæta eftirliti á grundvelli laganna bæri ekki skylda til að taka sýni úr umhverfi. Með umhverfissýni er átt við sýni úr umhverfi vinnslunnar, þ.e. húsnæði sem fóður er geymt eða unnið í, búnaður sem er notaður til framleiðslu, geymslu, flutnings o.s.frv. Einnig er átt við ytra umhverfi, svo sem aðkomuleiðir að verksmiðju og bílastæðum, sem er ekki í beinni snertingu við fóður en getur mengast og valdið hættu á víxlmengun fóðursins. Með ákvæði 6. gr. er ætlunin að fá upplýsingar frá þeim sem sæta eftirliti um þau jákvæðu sýni sem þau greina ef þessir aðilar sjá ástæðu til að taka sýni úr umhverfi, þar með talið bílastæðum. Ef til dæmis salmonella greinist er eðlilegt að slíkt sé tilkynnt og er talið mikilvægt að upplýsingar um þetta liggi fyrir svo að unnt sé að rannsaka smit og smitleiðir til alifuglaframleiðenda sem geta verið berskjaldaðir fyrir smituðu fóðri. Nefndin bendir á að fullur trúnaður ríkir um niðurstöður sýnatöku og áréttar að ekki hvílir skylda á þeim sem sæta eftirliti til að taka sýni af þessu tagi.

Lagt er til að við lögin bætist nýr kafli um áburð. Mælt er fyrir um skyldu framleiðenda eða dreifingaraðila áburðar til að leggja fram vottorð vegna kadmíums í áburði, að breytingar á efnainnihaldi áburðar séu tilkynntar Matvælastofnun og að markaðssetning sé stöðvuð ef áburður er ekki talinn öruggur til notkunar. Þá er kveðið á um ábyrgð stjórnanda áburðarfyrirtækis á því að kröfur laga og stjórnvaldsreglna séu á hverjum tíma uppfylltar og að hann beri sönnunarbyrði fyrir því að umræddar kröfur séu uppfylltar. Talsverðar umræður urðu um þessar skyldur og ég vík nánar að því síðar.

Í 7. gr. frumvarpsins er meðal annars kveðið á um að áburðarfyrirtæki skuli leggja fram vottorð um kadmíuminnihald hverrar áburðartegundar fyrir innflutning eða markaðssetningu, að tilkynnt skuli um breytingu á hráefnum, efnainnihaldi eða eiginleikum áburðar og að stjórnandi áburðarfyrirtækis skuli tilkynna Matvælastofnun telji hann eða hafi hann ástæðu til að telja að áburður sé ekki í samræmi við kröfur um efnainnihald eða eiginleika og gera ráðstafanir til úrbóta. Við meðferð málsins í nefndinni bar nokkuð á athugasemdum um verklag við til að mynda sýnatöku úr áburði og um móttöku á vottorðum um vöru erlendis frá. Nefndin leggur til að við e-lið 7. gr. bætist ný málsgrein þar sem kveðið verði á um heimild ráðherra til að setja reglugerð þar sem mælt verði nánar fyrir um framkvæmd eftirlits, þar með talið um sýnatöku eftirlitsaðila hér á landi og um þau vottorð sem fylgja vöru erlendis frá.

Eins og ég sagði áðan urðu talsverðar umræður um ábyrgð stjórnenda og ekki síst vegna þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingum á ákvæðum um stjórnvaldssektir og refsingarviðurlög. Í gildandi lögum eru ekki tilgreindar þær lagagreinar sem brot gegn geti varðað viðurlögum heldur er ákvæðið opið þar sem segir að brot gegn lögunum geti varðað sektum og einnig að sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skuli brot að auki varða fangelsi allt að tveimur árum. Ekki er í frumvarpinu aukið við refsihámark gildandi laga. Mikilvægt er að undirstrika að þær breytingar sem hér eru innleiddar eru ekki meiri en eru í gildandi lögum. Breytingin er einungis ætluð til að skýra verknað brotanna og háttsemi til að betur gangi að ganga eftir virkni þeirra ákvæða.

Í 9. gr. er lagt til að heimilt verði að gefa fyrirmæli um afmengun fóðurs, áburðar og sáðvöru. Fram kom við umfjöllun um frumvarpið í nefndinni að ekki væri unnt að afmenga áburð og leggur því nefndin til að áburður falli brott úr framangreindri upptalningu.

Nokkuð var rætt um kadmíum í áburði við umfjöllun um málið. Má með nokkrum sanni segja að málið eigi uppruna sinn í umræðu um kadmíummengaðan áburð, en fyrir liggja margar greinargerðir um málið sem hafa verið unnar fyrir stjórnvöld og eins fyrir innflytjanda á áburði. Fjallað var um innihald kadmíum í áburði og afleiðingar þess að hingað til lands hefur borist áburður með hærra kadmíuminnihald en íslenskar reglur kveða á um. Íslenskar reglur um kadmíuminnihald kveða á um 50 mg kadmíum (Cd) pr. kg fosfórs í áburði. Fram kom við umfjöllun um málið í nefndinni að tvenns konar fosfór finnist í heiminum, annars vegar fosfór með lágu kadmíuminnihaldi og hins vegar kadmíumríkur fosfór. Ég fer ekki nánar út í það en niðurstaða nefndarinnar var að mælast til þess við ráðherra að þau viðmið sem hér gilda um magn kadmíums í áburði verði tekin til umræðu og endurskoðunar, og þær reglur sem um þetta gilda.

Nefndin leggur ekki til fleiri breytingar á frumvarpinu og hef ég rakið þær eins og nefndin rökstyður þær.

Atvinnuveganefnd afgreiddi málið frá sér 5. mars 2014. Þá voru fjarverandi við afgreiðslu málsins Ásmundur Friðriksson og Björt Ólafsdóttir. Að öðru leyti skrifa allir nefndarmenn undir álitið, þ.e. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Kristján L. Möller, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir og Haraldur Benediktsson.