143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

forvarnastarf vegna krabbameins í blöðruhálskirtli.

28. mál
[16:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta krabbamein í körlum á Íslandi og um 200 ný tilfelli greinast á ári. Af völdum meinsins látast um 50 karlar árlega á aldrinum 45 til 80 ára. Aukin almenn vitund um þennan sjúkdóm er líkleg til að auka greiningarmöguleika á fyrstu stigum sjúkdómsins, þar með líkum á greiningu. Það gildir um þetta krabbamein eins og svo mörg önnur að ef það greinist tiltölulega snemma er hægt að fjarlægja meinið áður en það hefur dreift sér út fyrir blöðruhálskirtilinn og valdið meinvörpum annars staðar í líkamanum. Mein þetta er einstakt að því leyti að það er byggt upp úr blöðruhálskirtilsfrumum sem eru sértækar og finnast hvergi í líkama mannsins utan blöðruhálskirtilsins. Hann er þreifanlegur kirtillinn með fingri upp í endaþarm og með ómskoðun um endaþarm er auðvelt að skoða líffærið og taka sýni úr því til skoðunar og greiningar á meininu.

Blöðruhálskirtilsfrumur gefa frá sér mótefnavaka sem er mælanlegur í blóði karlmanna, svokallað PSA. Það er hægt að meta, út frá gildi PSA í blóði karlmanna, hvort líklegt sé að vöxtur krabbameins eigi sér stað. Það gerist með því að endurtaka mælinguna með tiltölulega stuttu millibili, nokkurra mánaða millibili, og mæla þá aukningu sem er að verða. Það er ekki óalgengt að svokallað PSA-gildi hækki í blóði hjá karlmönnum eftir því sem aldurinn hækkar. Það þarf ekki endilega að gefa neina vísbendingu um að krabbamein eigi sér stað. Með því að endurtaka mælingarnar reglulega er hægt að fylgjast með þessu.

Þetta er auðvitað mjög ódýr aðferð og það er mjög mikilvægt að mínu viti að hrinda af stað vitundarvakningu karlmanna um þetta mál, af því að það að greinast með krabbamein er auðvitað harmleikur fyrir hvern og einn einstakling og ekki síður fjölskyldu hans.

Læknisfræðinni hleypir fram á þessu sviði eins og öðrum. Nú stendur yfir söfnun fyrir tæki sem er svokallaður róbot sem er skurðartæki sem einfaldar mjög allar aðgerðir í þessu efni og gefur aukna möguleika á því að karlmenn geti endurheimt full lífsgæði eftir slíkar aðgerðir. Það er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að um þetta mein sem er eitt algengasta krabbamein á Íslandi og það langalgengasta í körlum sé vitundarvakning aukin þannig að við megum bregðast við, vegna þess að það er dýrt fyrir samfélagið að missa menn af völdum þessa krabbameins, sem við getum komið í veg fyrir, jafnvel á besta aldri.

Ég vil þakka nefndinni fyrir störfin varðandi þessa þingsályktunartillögu og fagna niðurstöðu hennar.