143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

brottnám líffæra.

34. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. velfn. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði svokallað ætlað samþykki fyrir líffæragjöfum látinna einstaklinga. Í því felst að í lögum skuli mælt fyrir um að heimilt sé að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til nota við læknismeðferð annars einstaklings, án þess að hinn látni hafi sérstaklega samþykkt slíkt brottnám. Samkvæmt gildandi lögum um brottnám líffæra er aðeins heimilt að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings ef fyrir liggur samþykki hins látna eða, ef slíkt samþykki liggur ekki fyrir, samþykki náinna vandamanna hins látna. Hefur þetta fyrirkomulag stundum verið nefnt ætluð neitun við líffæragjafir gagnstætt ætluðu samþykki en einnig nefnt upplýst samþykki.

Þingsályktunartillögur þar sem lagt hefur verið til að lögum verði breytt á þá leið að gert skuli ráð fyrir ætluðu samþykki við líffæragjafir hafa tvívegis verið lagðar fram á Alþingi á síðustu árum en ekki verið samþykktar. Á 140. löggjafarþingi mælti velferðarnefnd með samþykkt þingsályktunartillögu þessa efnis í nefndaráliti og á 141. löggjafarþingi lagði velferðarnefnd til að þingsályktunartillaga þessa efnis yrði samþykkt en þó með þeim breytingum að ekki skyldi unnið að gerð frumvarps um ætlað samþykki við líffæragjafir heldur að ráðherra yrði falið að skipa nefnd sem kannaði með hvaða leiðum mætti fjölga líffæragjöfum frá látnum einstaklingum og að hleypt yrði af stað átaki sem auki umræðu og fræðslu í samfélaginu um mikilvægi líffæragjafa. Fjallað hefur verið ítarlega um málið á vettvangi nefndarinnar síðustu tvö ár og telur nefndin nú brýnt að málið hljóti efnislega meðferð í ljósi fyrri málsmeðferða. Skiptar skoðanir eru um málið og komu mörg sjónarmið fram á fundum nefndarinnar.

Um afar viðkvæmt málefni er að ræða sem fólk hugar almennt ekki að fyrr en á örlagastundu. Ljóst er að fjölga þarf líffæragjöfum þar sem eftirspurn eftir líffærum er meiri en framboð þeirra. Lifandi líffæragjafar eru tiltölulega margir hér á landi í samanburði við nágrannalönd okkar en hins vegar eru líffæragjafir frá látnum einstaklingum nokkuð fátíðar. Af hálfu nefndarinnar og þeirra sem komu fyrir nefndina er ríkur vilji til að fjölga líffæragjöfum látinna einstaklinga. Í þessu ljósi bendir nefndin á að reynsla annarra þjóða sýnir að breytt löggjöf líkt og lögð er til í þessu frumvarpi dugir ekki ein og sér til að fjölga líffæragjöfum. Mikilvægara er að fram fari víðtæk þjóðfélagsumræða um mikilvægi líffæragjafa og að aðstandendur séu meðvitaðir um að þeir geti þurft að taka erfiðar ákvarðanir á dánarstundu aðstandanda og að þeir séu undir það búnir. Í því samhengi þarf einnig að huga að þjálfun heilbrigðisstétta í að nálgast og ræða við aðstandendur á þessari erfiðu stundu. Mikilvægt er að umræðan fari fram hér á landi, enda getur annars breytt löggjöf að því leyti sem lagt er til í frumvarpinu dugað skammt til að fjölga líffæragjöfum frá látnum einstaklingum.

Við meðferð málsins barst nefndinni erindi frá aðstandanda manns sem lést í kjölfar bílslyss fyrr á árinu. Þar er lagt til að 29. janúar ár hvert verði gerður að degi líffæragjafa til að minna á þá þörfu umræðu sem þarf að eiga sér stað um mikilvægi líffæragjafa, en þann dag hófst umræða um líffæragjöf hans. Nefndin tekur undir þessa tillögu og leggur til að eitt af þeim atriðum sem tekin verða til skoðunar við frekari vinnslu málsins verði að helga árlega einn dag líffæragjöfum til að efla og tryggja umræðu um mikilvægi líffæragjafar og í því sambandi verði litið sérstaklega til 29. janúar.

Að framansögðu virtu telur nefndin ekki tímabært að leggja til þá grundvallarbreytingu að í löggjöf skuli gert ráð fyrir ætluðu samþykki fyrir líffæragjöf. Er það fyrst og fremst vegna þess að reynsla annarra þjóða hefur sýnt að lagabreyting ein og sér hefur ekki tilætluð áhrif og getur vegið að sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga. Nefndin telur brýnt að leitað verði leiða til að fjölga líffæragjöfum frá látnum einstaklingum og getur lagabreyting sem þessi verið ein þeirra aðferða sem koma til greina en nauðsynlegt er þó að allar leiðir að markmiðinu verði skoðaðar ítarlega. Leggur nefndin því til að frumvarpið verði afgreitt á þann hátt að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem áfram verði unnið að málinu og tiltekin atriði sem upp eru talin í nefndaráliti verði þar lögð til grundvallar.

Nefndin leggur því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnar.

Undir þetta rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður, Ásmundur Friðriksson, Guðbjartur Hannesson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Björt Ólafsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Auk þess er hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, samþykkur áliti þessu.