143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

brottnám líffæra.

34. mál
[16:21]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með afgreiðslu nefndarinnar á þessu mikilvæga máli, sem ég veit að er mjög viðkvæmt og snertir okkur öll, að vísa því til ríkisstjórnarinnar.

Ef ég mætti ráða tækjum við upp það fyrirkomulag sem er í Austurríki og Belgíu þar sem má einfaldlega nota líffæri úr látnu fólki. Ég átta mig alveg á því að það er mjög róttækt og geri ekki ráð fyrir að það séu endilega mjög margir sammála mér í því. En það er eitt og hitt er að taka þetta mál sem nú er hér í þriðja skipti til umræðu og vísa því til ríkisstjórnar, ég tala nú ekki um með þeim orðum að nú sé tími til að taka á málinu, að ekki sé rétt að láta það detta niður í þingstörfunum. Ég er alveg sammála því að það er margt sem þarf að koma til. Þetta er mjög viðkvæmt mál. Í nefndarálitinu segir að löggjöf dugi ekki til ein og sér heldur þurfi að uppfræða heilbrigðisstarfsmenn, það þurfi að uppfræða fólk, það þurfi að ná af stað umræðu. Allt er það rétt og það þarf virkilega að gera en það þarf líka að gera eitthvað róttækt til að umræðan fari af stað, til að við setjum af stað þá uppfræðslu sem þarf meðal almennings, sem þarf meðal heilbrigðisstarfsfólks þannig að það gerist eitthvað í þessum málum annað en að við veltum vöngum endalaust.

Þess vegna hefði ég talið að það hefði mátt setja þetta fram og síðan hafa tvö ár eða þrjú í gildistíma. Þá hefði lagasetningin verið komin en það hefði verið gefinn nægur tími til þess að undirbúa okkur öll undir þetta og heilbrigðisstarfsmenn, en sagt er að þetta geti verið mjög erfitt mál fyrir þá.

Við verðum líka að athuga að ætlað samþykki þýðir ekki að aðstandendur geti ekki neitað ef þeim býður svo við að horfa.

Mér finnst þetta skipta máli. Ég tek undir það sem kemur fram í þingsályktunartillögu sem var lögð fram á 141. löggjafarþingi. Þar segir, með leyfi forseta, í greinargerðinni:

„Í bókinni Siðfræði lífs og dauða eftir Vilhjálm Árnason, prófessor í heimspeki, er fjallað um siðferðileg álitamál vegna líffæragjafa […]“

Síðan segir, og er haft upp úr bókinni:

„Eðli málsins samkvæmt er siðferðilega mun mikilvægara að vita fyrir víst um andstöðu manneskjunnar gegn brottnámi líffæris en um samþykki hennar fyrir því. Í siðuðu samfélagi er eðlilegra að gera ráð fyrir því að manneskjan vilji koma náunga sínum til hjálpar í neyð en að hún hafni því.“

Núna þurfum við að láta vita sérstaklega ef við viljum að líffæri úr okkur séu notuð, en í þessu getum við látið vita ef við viljum það ekki. Í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er gengið út frá því að það sé það sem við viljum.

Ég veit að þetta er viðkvæmt mál en ég varð fyrir vonbrigðum með að nefndin skyldi vísa þessu svona til ríkisstjórnarinnar, einfaldlega vegna þess að ég hrædd um að það gerist ekkert í málinu á næstunni. Ef það væri settur tveggja eða þriggja ára gildistími væri það til að reka á eftir því að eitthvað gerðist í málinu, því að það er það sem þarf að gerast. Það þarf eitthvað að gerast í þessu máli.