143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti sem er flutt af allri nefndinni, þ.e. umhverfis- og samgöngunefnd, þar sem lagt er til að tillaga til þingsályktunar um endurskoðun laga og reglna með tilliti til myglusveppa og tjóns af völdum þeirra verði samþykkt óbreytt, en tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp sem taki til heildstæðrar endurskoðunar lög og reglur á sviði byggingarmála með tilliti til myglusveppa og þess tjóns sem þeir geta valdið. Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum sínum og tillögum að úrbótum fyrir 1. júlí 2014 sem ráðherra greini opinberlega frá.“

Um tillöguna hefur nefndin fjallað og komst að sameiginlegri niðurstöðu um að leggja til að þetta verði samþykkt óbreytt fyrir utan að nefndin taki tillit til ákveðinna þátta sem við nefnum í nefndarálitinu, sem ég ætla að fara aðeins stuttlega hér yfir.

Ég vil nefna líka annan þátt. Við samþykktum þetta mál ef ég man rétt í kringum síðustu áramót, það er orðið það langt síðan að ég man það ekki nákvæmlega, og töluverður tími er síðan málið var afgreitt úr nefndinni og þar til það kemur hér á dagskrá núna. Lagt er til í tillögunni að nefndin skili niðurstöðum fyrir 1. júlí og sá tími er orðinn ansi knappur. Þegar málið er tekið úr nefnd er hálft ár fram undan þannig að ég ætla að fá að mælast til þess að ráðherrann skipi starfshópinn til sex eða sjö mánaða eins og nefndin hafði gert ráð fyrir upphaflega. Þó að þessi dagsetning sé hér inni verði tekið tillit til þess hvenær nefndin afgreiddi þetta út og miða frekar við það þannig að nefndin muni kannski ekki fara að kalla fast eftir þessu fyrr en upp úr næstu áramótum.

Virðulegi forseti. Við fengum fjölmarga til okkar í nefndinni til að fjalla um málið. Þetta var afar athyglisvert mál vegna þess að myglusveppur hefur haft gríðarlega mikil áhrif, ekki bara á húsnæðið sjálft með þeim raka sem er undanfari myglusveppsins og skemmdir sökum hans á húsnæðinu, heldur líka á heilsufar þeirra sem annaðhvort í húsnæðinu búa eða í því starfa. Þess vegna er þetta verulega aðkallandi mál og nefndin er sammála um að brýnt sé að taka á því.

Við fengum á fund nefndarinnar þó nokkuð af gestum, sem farið er yfir í nefndarálitinu og ég ætla ekki að telja þá neitt sérstaklega upp. En í umræðum um málið kom fram að til að myglusveppir myndist þurfi að koma til samspil fjögurra atriða, þ.e. raka, hita, næringar og tíma. Þá kom fram að oft myndast myglusveppir vegna rangrar efnisnotkunar, raka í byggingarefnum vegna rangra ákvarðana er varða efnisval, rakaþéttingar, loftunar og annars frágangs. Einnig skiptir notkun á mannvirki miklu máli hvað varðar hitun, loftræstingu og rakamyndun í rýminu sem um ræðir.

Umsagnaraðilar voru almennt mjög jákvæðir gagnvart tillögunni en bentu á nokkur atriði sem umræddur starfshópur mætti hafa að leiðarljósi í vinnu sinni. Þeir bentu á að auka þyrfti þekkingu á því flókna samspili sem ætti sér stað í aðdraganda myglumyndunar og að hvetja þyrfti til frekari rannsókna. Við tökum undir það að mjög mikilvægt er að hvetja þá sem standa að menntun hönnuða og iðnmeistara til að efla fræðslu um aðdraganda myglumyndunar og hvað það er sem henni veldur.

Þá kom líka fram í umræðunni, og það var atriði sem við teljum mjög mikilvægt að starfshópurinn taki til skoðunar, að fara þurfi yfir það hvernig haldið er utan um upplýsingar um vandamálið og skipulag slíkra upplýsinga. Í dag er það þannig að upplýsingar um þessi mál, þ.e. tilfelli, fyrirspurnir og annað er á víð og dreif í kerfinu. Náttúrufræðistofnun er með hluta af þeim, heilbrigðiseftirlit hinna ýmsu sveitarfélaga og ólíkir aðilar halda utan um þetta. Þetta kemur hvergi saman á einum stað. Því teljum við mikilvægt að starfshópurinn komi með tillögu um hvernig megi bæta skipulag upplýsinga um vandamálið og þá líka utanumhald um rannsóknir þannig að þetta liggi allt saman miðlægt, og þá er betra að vinna með það.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara dýpra í málið en minni á að nefndin telur mikilvægt, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að starfshópurinn hafi samráð við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna í störfum sínum.

Undir nefndarálitið rita sú er hér stendur og er framsögumaður, formaður nefndarinnar, Höskuldur Þórhallsson, Willum Þór Þórsson, Valgerður Gunnarsdóttir, Brynjar Níelsson, Katrín Jakobsdóttir og Róbert Marshall.