143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[16:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér einungis til að fagna því að umhverfis- og samgöngunefnd lauk sinni vinnu við þessa þingsályktunartillögu sem ég er 1. flutningsmaður að ásamt tólf öðrum þingmönnum úr öllum flokkum, þ.e. um endurskoðun laga og reglna með tilliti til myglusveppa og tjóns af völdum þeirra. Þessi tillaga sem ég flutti var fyrst flutt á þarsíðasta þingi og þá var 1. flutningsmaður þáverandi hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir, þannig að það má segja að ég hafi fengið þetta í arf frá samþingskonu minni.

Fyrir það fyrsta vil ég ítreka að ég er afar ánægður með að umhverfis- og samgöngunefnd skuli hafa klárað málið, skilað frá sér nefndaráliti þar sem hún leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. En nú hefur hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, framsögumaður nefndarinnar, vakið athygli á því, vegna þess hve langt er liðið síðan tillagan var tekin úr nefnd, að dagsetningin í tillögunni, 1. júlí 2014, er farin og við erum þá kannski frekar að horfa til 1. desember 2014. Þetta er auðvitað atriði sem vert er að komi fram hér í umræðu um málið, sem er þá ákveðin skýring líka á tillögunni. Þess vegna geri ég engar athugasemdir við það og tel að sex mánuðir í vinnu starfshópsins dugi alveg fyrir þessu.

Það er rétt að rifja það aðeins upp að það eru nokkur atriði í þessu sem skipta miklu máli. Eitt er það að þegar myglusveppur kemur upp getur það haft mjög slæm heilsufarsleg áhrif á íbúa þess húsnæðis og þess eru mörg dæmi. Jafnvel eru dæmi um að varanlegur heilsuskaði hafi hlotist af þessum vágesti sem er svo lúmskur sem raun ber vitni og getur valdið þessu mikla tjóni. Það er einn þátturinn sem vert er að fara í gegnum.

Hinn þátturinn, sem ég vil enn einu sinni leggja ríka áherslu á, eru tryggingamál. Starfshópurinn, sem á að skipa og ég mun hvetja til þess að verði skipaður sem allra fyrst, þarf að fara í gegnum tryggingamál.

Tökum dæmi: Brenni hús til grunna þá er það tryggingamál og fæst bætt af tryggingum. Komi hins vegar upp myglusveppur þar sem eina úrræðið er að rífa húsið og jafnvel með öllum húsgögnum og fatnaði fólks og annað þá er það óbætt. Þetta er engu að síður mikilvægt atriði að starfshópurinn skoði og geri tillögur um vegna þess að á þessu þarf að taka. Það er ekki hægt að una við það að fólk sem lendir í þessu þurfi að rífa hús sitt, standi eftir með allar skuldir og sé þar að auki ófært, vegna lánafyrirgreiðslna, um að koma sér þaki yfir höfuðið aftur, sem er grunnþörf okkar allra.

Á þetta vil ég leggja áherslu og segi: Við leitum oft til nágrannaþjóða okkar til að skoða hvernig þær bregðast við hlutum. Ég hef upplýsingar um það að í Noregi er tekið mjög á þessu og þar er ekki greinarmunur gerður á. Það er mikilvægt að fara í gegnum og skoða hluti eins og ábyrgð húsbyggjenda og þeirra sem koma að endurbótum á húsnæði og ábyrgð eigenda í tilviki leiguhúsnæðis, ábyrgð á fasteignaviðskiptum með tilliti til seljenda, kaupenda og fasteignasala, eftirlit stjórnvalda og um hollustuhætti húsnæðis o.fl. sem getið er um í tillögu minni, í greinargerð með henni, á þessu þarf að skerpa. Og það er mikilvægt að þar skoði menn jafnvel byggingareglugerðir.

Ég hef átt fjölmörg samtöl út af þessari tillögu og út af þessu máli og margir hafa haft samband við mig. Ég hef heyrt lýsingar á því hvernig hús eru byggð í dag eða endurbyggð sem orkar mjög tvímælis með tilliti til þessa þáttar. Þetta er veigamikið atriði að fara í gegnum.

Það virðist bara gerast einhvern veginn þannig að nýjungar í byggingum eru oft og tíðum teknar upp í fljótheitum, farið er að framkvæma og svo fá menn höggið síðar hvað þetta varðar. Það er svakalegt að sjá myndir og sjá það með eigin augum að í nýbyggðum húsum hefur verið gengið þannig frá að myglusveppur myndast til dæmis í þaki, sem eru verstu dæmin sem ég hef séð. Það hef ég séð í tiltölulega nýbyggðum húsum vegna þess að ekki var gengið rétt frá, bara það litla atriði að ekki var hugsað fyrir eðlilegri loftun. Þarna kemur líka inn í ábyrgð sveitarfélaga hvað varðar byggingaeftirlit og annað.

Virðulegi forseti. Mér er mikið í mun að þessi tillaga verði samþykkt og því ætla ég ekki að lengja þessa umræðu. Ég sagði allt sem ég þurfti að segja þegar tillagan var flutt. Hér er hún sem sagt komin til lokaafgreiðslu Alþingis og verður vonandi samþykkt. Ég trúi því og treysti að ráðherra umhverfismála skipi þessa nefnd sem fyrst þannig að hún geti farið í gegnum alla þessa þætti sem fjallað er um í tillögunni og við getum unnið hratt í þessu. Starfshópurinn þarf að vinna hratt í þessu vegna þess að allt of mörg dæmi eru enn að koma upp, enn þann dag í dag. Þetta eru ekki bara gömul mál.

Kaldhæðnin í þessu, hvað varðar þessa tillögu, er ef til vill sú að myglusveppur hefur gert vart við sig í aðalheilbrigðisstofnun landsins, Landspítalanum hér við Hringbraut, og í velferðarráðuneytinu hefur hann líka komið upp. Þarna eru tvær æðstu stofnanir hvað varðar velferð manna og heilsu, og þar hefur þetta komið upp. Við þekkjum það, það er opinbert, að læknar á Landspítala hafa veikst út af myglusvepp. Og það eru fleiri stofnanir í hinu opinbera kerfi þar sem þetta hefur gert vart við sig, til dæmis á Alþingisreitnum.

Þetta skulu verða mín lokaorð. Þó að ég nefni þessar stofnanir vil ég að auki nefna öll þau húsakynni, jafnvel hundruð húsa og íbúða, þar sem fólk býr við þennan vágest. Það þarf að vinna hratt.

Ég ítreka þakkir mínar til nefndarinnar, að hafa unnið þetta svona og sett þetta fram sem samhljóða nefndarálit, og fagna því líka að Alþingi hefur breytt starfsháttum sínum á þann veg að þingmannatillaga eins og hér er, sem ég er 1. flutningsmaður að ásamt tólf öðrum þingmönnum, mun hljóta hér farsæla afgreiðslu á Alþingi og verða samþykkt næst þegar við komum saman til atkvæðagreiðslu.